Beitti Framsóknarflokkurinn í Reykjavík “pr-bragði”?
útgefið

Pólun eða mótsetning fjallar um hvernig eitthvað hefur tilhneigingu til að snúa eða vaxa í ákveðna átt eða jafnvel hugsa á ákveðinn hátt eins og um segulmögnun væri að ræða. Þessi hugmynd getur mögulega skýrt hvernig hópmótsetning (grúppupólarisering) Framsóknarflokksins í Reykjavík skilaði góðu fylgi í nýliðnum kosningum.

 

Það getur verið gott að greina kosningar með faglegum gleraugum almannatengsla en hópmótsetning er einmitt leið sem gjarnan er notuð þegar koma á ákveðnum boðskap á framfæri með aðferðafræðilegri nálgun faglegs almannatengils. Leiðin byggist á því að sjónarmið eru einfölduð og gerð róttækari í þeim tilgangi að laða fram viðbrögð móttakanda skilaboðanna. 

Þegar um PR-áætlun er að ræða er hinsvegar ekki nóg að skipuleggja á ofangreindum forsendum heldur verður einnig að líta til þess hvort umhverfið sem umræðan fer fram í er líklegri til að stuðla að víðara eða þrengra sjónarhorni. 

Þegar niðurstaða greiningarinnar liggur fyrir er hægt að nota hópmótsetningu sem lið í pólitískri baráttu, sem boðbera í auglýsingu eða sem langtímaáætlun þar sem þrýst er á um afstöðu með tilteknu málefni.

Án skilnings eru engar líkur á vægð

Skoðum aðeins hugmyndina að baki hópmótsetningu nánar. Hugmyndafræðin byggir á því að fólk sé líklegra til að velja harðari afstöðu gagnvart tilteknu málefni eftir umræðu í hóp heldur en fólk myndi velja sjálfstætt og án umræðu. Sem dæmi um þetta væri umræðuþráður á spjallsíðu þar sem fólk sem er á svipaðri skoðun mun í enda spjallsins enn vera á sömu skoðun en þó harðara í afstöðu sinni en áður. Álit annarra hefur þannig hafa fest skoðun þeirra í sessi og stuðlað að meiri róttækni.

Í almannatengslum getur þessi taktík skipt miklu máli. Það skiptir ekki síður máli fyrir almenning að gera sér grein fyrir því hvernig taktíkinni er beitt. Þar sem hópar sem sameinast í ýmsum sjálfssemdum (ídentítet) eiga í auknu mæli samskipti á veraldarvefnum þá liggur fyrir að hætta er á vítahring einangrunar ef hópmótsetningu er beitt. Ástæðurnar geta verið fjölbreyttar en ein sú mikilvægasta er það orðfæri sem róttækur hópur kynni að nota í umfjöllun sinni um tiltekið málefni en orðfærið getur virkað einangrandi á þá sem standa utan hópsins. Vítahringur einagrunar getur þannig komið í veg fyrir að langtímamarkmið náist (grunvöllur þar er vald) þótt skammtímamarkmið kynnu að nást (grundvöllur þar eru áhrif sem sótt eru til lögmætis áhrifanna). 

Þar sem án skilnings eru engar líkur á vægð er ljóst að hópar með ólíkar skoðanir á milli sín en keimlíkar innbyrðis, sem hafa vettvang til tjáningar, munu hægt og rólega fjarlægjast hver aðra af þeirri einföldu ástæðu að þeir eiga í samskiptum innbyrðis fremur en á milli hópanna. Þannig eykst skilningurinn ekki. Raunar má telja líklegt að það dragi úr skilningi á milli hópanna. Öfgahópar verða því æ öfgakenndari.

Hópmótsetning byggir á tvennu

Það eru tvær meginbreytur sem skýra hvernig hópmótsetning virkar. Annarsvegar notkun sannfærandi raka og hinsvegar félagslegur samanburður. 

Í fyrsta lagi byggja sannfærandi rök á almennri skynsemi. Einstaklingur dregur einfaldlega ályktanir af þeim rökum sem eru mest sannfærandi. Þetta þýðir að ef afstaða einstaklings til tiltekins málefnis muni fara á einhvern rekspöl þá mun afstaðan fara í þá átt sem mest sannfærandi rök hníga innan tiltekins hóps sem er nokkurn vegin á sömu skoðun. Hópur sem þegar er á einhverri tiltekinni skoðun – segjum á móti hvalveiðum – er því líklegri en ella til að ráða yfir fleiri röksemdum á móti hvalveiðum en þeir hópar sem ekki hafa markað sér þessa tilteknu afstöðu. Þetta er auðvitað augljóst en hvað þýðir þetta? Þetta þýðir einfaldlega það að innan hópsins verða fá rök sem mæla gegn hvalveiðum. Þeir sem eru hlynntir þeim innan hópsins einangrast eða eru jaðarsettir og hópurinn styrkist í skoðun sinni.

Félagsmiðlar skapa svo vettvang til að festa skoðanir einstaklinganna innan hópsins enn frekar í sessi.

Í öðru lagi þá er það breytan sem snýr að félagslegum samanburði en hún grundvallast á því að fólk í hóp vilji almennt vera álitið vinsamlegt innan hópsins. Hér er reyndar nauðsynlegt að taka fram að einstaklingar eru mismótækilegir fyrir þessu eftir því hvar þeir raðast á skala einstaklingshyggju eða félagshyggju. Það skiptir einfaldlega minna máli fyrir þá sem trúa á frelsi einstaklingsins að tilheyra hópi en þá sem aðhyllast hugmyndir um vægi hópsins.

Fólk vill semsagt almennt ekki teljast of veikt eða of sterkt í skoðunum sínum innan hóps en það leiðir til þess að skoðanir þess sveiflast eftir því hvað aðrir í hópnum hugsa. Það eru ákveðnir kraftar sem eru hér að verki. Flest fólk – að sjálfsögðu ekki allt – vill að afstaða sín markist af félagslega samþykktum viðmiðum. Gallinn er sá að viðmiðin eru ekki sýnileg innan hóps fyrr en allir hafa gefið upp afstöðu sína. Fólk herðist því, eða linast, í afstöðu sinni til að vernda eigin sjálfssemd í hópnum. Það þarf ekki einu sinni umræðu til. Fólk aðlaðar skoðun sína á grundvelli einföldustu upplýsinga.

Og hver er þá niðurstaðan?

Reynum þá að svara upprunalegu spurningunni, „beitti Framsóknarflokkurinn í Reykjavík “PR-bragði”?“ Það er ýmislegt sem bendir til þess. Útspilið virðist hafa verið meðvitað og stjórnmálamenn þekkja flestir áhrif aferðarinnar og grípa því gjarnan til hennar þegar önnur ráð duga ekki. En að sama skapi þá þekkja fæstir stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokkar kraftana sem þarna eru að baki og því er hætt við því að árangurinn reynist ekki í takt við væntingar, til lengri tíma litið. 

Til þess að hópmótsetning sé hagkvæm sem aðferð þá verður fólk að upplifa sjálft sig sem einskonar frumherja eða undanfara sem jafnframt getur samsamað sig öðrum í hópnum. Með öðrum orðum þá má búast við því að hópar sem nái saman um tiltekin málsstað – segjum til dæmis gegn mosku – muni styrkjast í trú sinni því meir og betur eftir því sem hópurinn telur sig vera meiri undanfara. Þetta gerist jafnt á meðal hópa sem hlusta á Útvarp Sögu og í Facebook hópum. 

Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart og auðvitað hefur hópmótsetning leitt ýmislegt gott af sér eins og ýmis mannréttindi til handa samkynhneigðum og aukið jafnrétti kynjanna. Flestar hreyfingar sem stuðluðu að breytingum sem nú þykja sjálfsagðar þóttu í byrjun öfgakenndar.

Með samskiptum og nútíma almannatengslum er hægt að búa til fleiri öfgakenndahópa sem þó geta verið til góðs fyrir samfélagið eins og áðurnefndar frjálsræðishreyfingar. Þeir sem falla á milli hópanna eru í flestum tilfellum miklu fjölmennari en róttæklingarnir og þeir hafa því meiri áhrif í samfélaginu. En þegar fólk innan tiltekinna hópa styrkist í skoðunum sínum fremur en að taka upp nýjar vegna þess að skilningur og upplýsingar eru ekki til staðar þá er hætta á ferðum. 

Og þá er komið að rúsínunni í pylsuendanum. Við aðstæður sem þær sem að ofan er lýst skiptir öllu máli að fólk hafi aðgang að upplýsingum og skoðunum sem ekki samræmast þeirra eigin og það er einmitt hlutverk nútíma almannatengsla að breyta viðhorfum með þessum hætti. Annað er áróður – gömul PR-fræði.

Nýjast á Úlfaslóð

Um miðlun hins opinbera á upplýsingum og málpípuorgelin

Um miðlun hins opinbera á upplýsingum og málpípuorgelin

Í byrjun ágúst varð deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans, fyrrverandi blaðamaður, fyrir gagnrýni vegna tölvupósts sem sendur var á starfsfólk spítalans sem fjölmiðlar túlkuðu sem tilraun til að hindra samskipti starfsfólksins við fjölmiðlana. Fjölmiðlar tóku þetta eðlilega óstinnt upp en símanúmer Morgunblaðsins og RÚV voru sérstaklega nefnd í tölvupóstinum sem dæmi um símanúmer sem mætti forðast hringingar

smelltu og lestu »
woman in black shirt holding white plastic bottle

Covid-19 jók netnotkun heimsins. Hvað gerðist á Íslandi?

Covid-19 faraldurinn hefur leitt til aukningar á notkun snjalltækja og breyttrar hegðunar fólks á netinu um allan heim. Ísland er engin undantekning en mörg fyrirtæki tóku meðal annars upp heimsendingar, lækkuðu verð og juku úrval vara á netinu svo eitthvað sé nefnt. Þess má geta að 92% landsmanna notuðu Facebook í maí og 70% Youtube

smelltu og lestu »