Geta gert sáttmála um samtalið
útgefið
  • Samfélagið allt virðist loga í illdeilum og geta átökin borist inn á vinnustaðinn
  • Það getur snúist í höndunum á fyrirtækjum að taka afstöðu í hitamálum
  • Grundvallarreglur geta bætt samskiptin

Greina má merki um vaxandi spennu í samfélaginu og virðast ótal deilumál hafa náð að skipta landsmönnum í andstæðar fylkingar. Nú síðast hafa átökin á milli Ísraels og Palestínu náð að framkalla svo djúpstæðan klofning að gæti virst næstum ógerlegt að byggja brú á milli fylkinga.

Wall Street Journal birti áhugaverða grein í byrjun mánaðarins þar sem fjallað var um hvers konar áskorun það getur verið fyrir stjórnendur þegar hin ýmsu deilumál berast með samfélagsumræðunni og inn á vinnustaðinn, enda geta deilurnar spillt vinnufriðnum og magnað upp óánægju innan starfsmannahópsins.

Í tilviki átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs birtist vandi bandarískra fyrirtækja m.a. í því hvað eigi að leyfa á spjallsvæðum starfsmanna stórfyrirtækja – hvort fólk megi t.d. setja inn færslur til stuðnings Ísrael eða Palestínu sem gætu farið öfugt ofan í vinnufélagana. Þá standa sum fyrirtæki frammi fyrir því að starfsfólkið kallar eftir að vinnustaðurinn taki skýra og afgerandi afstöðu í þessu eldfima máli, rétt eins og fyrirtæki hafa áður tekið afstöðu er varðar önnur mál, t.d. í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu eða þegar kynþáttamisrétti var mótmælt af miklu kappi vítt og breitt um Bandaríkin árin 2020 og 2021.

Bendir WSJ jafnframt á að það geti gert suma starfsmenn óánægða og jafnvel óörugga ef þeir upplifa stöðu sína sem svo að þeir megi ekki viðra skoðanir sínar á vinnustaðnum og ákveði þess vegna að þaga frekar en að tjá sig um sín hjartans mál. Sé það kannski verst af öllu ef fólk óttast að það að vera á „rangri skoðun“ geti kostað það vinnuna.

Reglur og svigrúm fyrir góð skoðanaskipti

Guðjón Heiðar Pálsson er landsstjóri (e. country manager) ráðgjafarfyrirtækisins Cohn & Wolfe á Íslandi og bendir hann á að þó best sé að geta haldið friðinn þá sé það ekkert nýtt að ósætti myndist innan vinnustaða. Oftast gangi slíkt ósætti yfir á nokkrum dögum – eða jafnvel nokkrum klukkustundum – og sjaldgæft sé að langvarandi ágreiningur grasseri innan fyrirtækja.

Segir Guðjón Heiðar að ef deilur skapast á vinnustaðnum um mál sem koma ekki rekstrinum við með beinum hætti þurfi stjórnendur að sýna mikla aðgát, og hugsa sig þrisvar um áður en þeir freista þess að stýra ágreiningi á milli starfsfólks. „Sama hvert málefnið er, og hve mikill hiti er í fólki, þá ættu stjórnendur að forðast það að skipta sér af minni ágreiningsmálum. Er ágætt að hafa það hugfast að fólk hefur frelsi til að rífast, á vinnustaðnum sem annars staðar, en vitaskuld verður hver starfsmaður að taka ábyrgð á eigin hegðun,“ segir hann og bendir á að í hitamálum af því tagi sem gengið hafa yfir heimsbyggðina á undanförnum misserum sé fólk oft að ganga í gegnum nokkurs konar sorgarferli og vænlegast til árangurs að skipta sér ekki af því á meðan þetta ferli er til leitt til lykta.

Til að ýta undir heilbrigð skoðanaskipti segir Guðjón Heiðar að stjórnendur geti komið á n.k. „samtals-sáttmála“ á vinnustaðnum, í samræmi við það andrúmsloft og aðstæður sem eru á hverjum stað. Atvinnulífið hefur þegar af því reynslu að gefa hreinlega út skriflegar reglur til að sporna t.d. við kynferðislegri áreitni og ósæmilegri hegðun á milli starfsmanna, og hægt sé að beita svipaðri nálgun til að fyrirbyggja að hitamál spilli ekki vinnufriðinum og dragi ekki úr getu fólks til að starfa saman í sátt og samlyndi. Nefnir Guðjón Heiðar það sérstaklega að ekki sé hægt að finna eina útgáfu af samtals-sáttmála sem hentað geti öllum, en slíkur sáttmáli geti t.d. falið það í sér að gera öllum ljóst að fyrirtækið sé friðelskandi vinnustaður þar sem hafa beri virðingu, tryggð og umhyggju að leiðarljósi. Eins gæti það reynst vel að ræða málin augliti til auglitis, frekar en t.d. að láta boð út ganga með það fyrir augum að kveða niður eitthvert vandamálið í eitt skipti fyrir öll. „Það getur verið erfitt að ræða hitamál við marga í einu, en þegar fólk spjallar sín á milli vill oft verða auðveldara að miðla stuðningi og koma á gagnkvæmum skilningi.“

Er ábyrgt að vera hlutlaus?

En á fyrirtækið sjálft að taka afstöðu í hitamálum? Guðjón Heiðar bendir á að þar séu sumir stjórnendur í verulegri klípu enda búið að skapa fordæmi fyrir því að vera með eða á móti alls kyns málum – oft löngu eftir að almenn sátt hefur náðst í samfélaginu um hvað þykir góður og hvað vondur málstaður. Eitt er að fylgja straumnum þegar samfélagið allt virðist á einu máli, og annað að þurfa að gera upp á milli tveggja jafnstórra andstæðra fylkinga. Segir Guðjón Heiðar það farsælast að fyrirtæki, og stofnanir alveg sérstaklega, reyni að viðhalda hlutleysi í flestum málum, og eins kunni það ekki góðri lukku að stýra ef stjórnendur reyna að nota reksturinn til að hampa sinni eigin afstöðu í ólíkum málaflokkum. „Þó ekki væri nema vegna þess að viðbúið er að starfsmanna- og stjórnendahópurinn taki sífelldum breytingum og býr það til nýjar flækjur ef fyrirtæki hefur tekið afgerandi afstöðu í einhverju máli en nýir stjórnendur með allt aðrar skoðanir og áherslur hafa tekið við.“

Guðjón Heiðar segir stjórnendur líka stundum þurfa að geta staðið í lappirnar, en þeir geta upplifað mikinn þrýsting frá háværum hópum um tiltekna afstöðu eða aðgerðir í hinum eða þessum málaflokknum. Er t.d. mikið kallað eftir því að fyrirtæki axli „samfélagslega ábyrgð“, með aðgerðum sem ná langt út fyrir kjarnastarfsemina. „En samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja á fyrst og fremst að snúast um að selja eða framleiða góða vöru og þjónustu, í sátt við náttúru og nærsamfélag, og viðskiptavinum sínum til hagsbóta,“ útskýrir Guðjón en bætir við að siðgæði felist í því að taka alltaf samtalið þó að erfitt sé, nýta athyglina eða tækifærið til að ýta undir betri mannleg samskipti og skapa öryggi og vellíðan hjá öllum viðkomandi.

Ríma þessi ráð Guðjóns Heiðars við það sem fram kemur í umfjöllun WSJ, en þar segir að ráðgjafar reyni í dag að beina bandarískum stórfyrirtækjum inn á þá braut að forðast að vekja á sér athygli með því að taka afstöðu í hitamálum. Helst þetta í hendur við kannanir vestanhafs sem sýna að bandarískir neytendur leggja minna en áður upp úr því að fyrirtæki taki pólitíska afstöðu.

– – – – – 

Viðtal: Ásgeir Ingvarsson Mbl

Birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2023

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Handaband