Það getur verið skynsamleg nýting á opinberu fé jafnt sem fjármunum einstaklinga að kaupa sérfræðiþjónustu. Það getur átt við um kaup á þjónustu almannatengla, lögfræðiþjónustu, fjármálaþjónustu, tækniráðgjöf eða aðra sérfræðiþjónustu.
Það er sjálfsagt og eðlilegt að borga fyrir þjónustu sérfræðinga. En gæta verður þess að greiða fyrir þjónustu sem miðast viðfangsefnið eða vandamálið hverju sinni.
Leitaðu til sérfræðinga
Innanríkisráðuneytið hefur að ósk Kjarnans upplýst að ráðuneytið hafi greitt markaðsstofu tæpar 2,4 milljónir króna og lögmannsstofunni LEX tæpar 1,1 milljónir króna vegna vegna ráðgjafar í tengslum við lekamálið á síðasta ári. Fleiri fjölmiðlar tóku málið upp. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra vegna lekamálsins.
Þá sagði Kjarninn líka frá því að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi á síðastliðnum sex mánuðum greitt tæpar 830 þúsund krónur vegna sérfræðiþjónustu í tengslum við skýrslu um búsáhaldabyltinguna og vegna lekamálsins.
Þegar kemur að sérfræðiráðgjöf er mikilvægt að hún sé unnin af fagmönnun. Það ætti að vera augljóst að það er ekki skynsamlegt að biðja lögfræðinginn sinn um að skipta um bremsuklossa í bílnum eða matreiðslumann um að sjá um tölvukerfið í fyrirtækinu.
Það þarf kunnáttu til að kaupa sérfræðiþjónustu og leita til réttra ráðgjafa. Varla er hægt að fara fram á endurgreiðslu ef vinna lögfræðings við bremsuklossana er léleg.
Ekki fara veikur til læknis
Þekkingu þarf til að kaupa sérfræðiþjónustu. Kaup á ráðgjöf fagmanna er líka merki um gæði og forvörn. Eins og maðurinn sem fer til læknis áður en hann verður veikur. Hann getur fengið bólusetningu eða heilsufarsráðgjöf og er þar af leiðandi líklegri til að sleppa við heilsufarskrísu. Það sama gildir um hreyfingu og neyslu á hollu mataræði. Það ber af sama brunni. Allt í þessu sem er rökrétt. Hugsunin snýr að forvörn en ekki lækningu sem veikur maður vill þegar hann leitar til læknis.
Minnkaðu áhættuna á krísu
Nútíma almannatengsl byggja á aðferðafræði sem felst fyrst og fremst forvörn; regluleg samskipti auka notagildi. Mannfélagið byggist allt á reglubundnum samskiptum.
Krísustjórn er hluti af aðferðafræðinni en forvörnin minnkar líkur á krísum og gerir úrlausn þeirra auðveldari. Almannatengill getur virkað eins og bæði veðurfræðingur og björgunarsveitarmaður. Það er ódýrara að hlusta á veðurfræðinginn áður en lagt er á heiðina og sleppa þá ferðinni ef vegurinn er ófær. Það er margfalt meira mál að festa sig og kalla svo á björgunarsveitina til að losa sig úr krísu sem hefði verið svo lítið mál að koma í veg fyrir.
Setja má fjárfestingu í almannatengslum undir sama hatt og kaup á tryggingum og öryggisbúnaði. Reglulegur fréttaflutningur og tíð samskipti við viðskiptavini er fjárfesting til langs tíma.