Það var engin kreppa á Íslandi
útgefið

Íslendingar tala enn um efnahagshrunið haustið 2008 og þá kreppu sem fylgdi í kjölfarið. Nú, um sjö árum síðar, hafa nokkrir sem taldir eru hafa átt hlut í hruninu hlotið dóma. Öðrum málum lykilpersóna er enn ólokið fyrir dómstólum.

En sama hvað því líður þá höfum við enn ekki áttað okkur á því að hér varð engin kreppa.

Hugmyndin um kreppuna er skynvilla. Kreppan varð til vegna bólu sem sprakk. Bólu sem varð til í ástandi sem fólk rangtúlkaði sem velsæld. Eðlilega vill fólk komast aftur til þess raunveruleika, inn í velsældina.

Röng spurning rannsóknarnefndar Alþingis

Íslenskt efnahagslíf gekk þokkalega árið 2001. Það var að koma út úr skammvinnri lægð, skuldsetning var skapleg og tannhjól undirliggjandi framleiðslu snerust ágætlega. Vextir Seðlabanka Íslands voru nokkuð háir en fjármögnun atvinnulífsins fór að hluta til fram í erlendri mynt, einkum sá hluti sem snerti útflutnings- og/ eða samkeppnisgreinar.

Þetta var lítið og sætt hagkerfi, sem þó var ekki að gera neinar sérstakar rósir. Engu að síður virtist það þess umkomið að sjá þegnum sínum fyrir ágætu lífi til framtíðar.

Það sem rannsóknarnefnd Alþingis hefði átt að skoða er hvernig tókst á sjö árum að komast úr þessari stöðu yfir í þá að einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög römbuðu á barmi gjaldþrots – og sum hver hafi vart átt sér viðreisnar von. Aðalatriðið í stóra samhenginu er ekki spurningin hvers vegna bankarnir urðu gjaldþrota.

Á Íslandi gerðist tvennt áður en bólan sprakk. Gjaldmiðillinn styrktist vegna örlætis Seðlabankans og Seðlabankinn neyddi hagkerfið til að ná sér í fjármögnun erlendis þar sem rekin var vaxtastefna sem engin lögleg atvinnustarfsemi þrífst á. Þess vegna skulduðu Íslendingar óheyrilega háar upphæðir í erlendri mynt. Vegna mikillar styrkingar gjaldmiðilsins varð verðlag á innfluttri vöru óeðlilega lágt og fjármögnun með erlendu lánsfé óeðlilega hagstæð. Það leiddi til hjarðhegðunar þjóðarinnar og lýsti sér í neyslu langt umfram undirliggjandi verðmætasköpun.

Venjulega myndu útflutningsfyrirtækin selja gjaldeyri, meðal annars til að kaupa íslenskar Matadorkrónur til að borga laun og þess háttar. Bankinn myndi lána gjaldeyri til stórhuga fyrirtækis sem ætlar að kaupa nýja framleiðslulínu til að skapa verðmæti og störf. Þegar aftur gengur vel borgar það lánið til baka. Gjaldeyrinn fer annan hring í hagkerfinu, öllum til hagsbóta.

Nú er þessi hringferð ekki möguleg nema með undanþágum, þegar og ef þær fást.

Búum enn við varhugavert ástand

Kreppa er ástand sem kemur og fer. Ísland er í stöðu sem mun vara til lengri tíma, líklega áratuga, og er lakari en sú sem við vorum í árið 2001. Við erum komin inn í nýjan veruleika með of dýru heilbrigðis- og skólakerfi og of víðfeðmu vegakerfi.

Þótt dregið hafi úr neikvæðum áhrifum þess að bólan sprakk þá þurfum við að passa okkur.

Ferðamannasprengjan hefur mildað áhrif hrunsins mikið og afurðaverð hefur verið hátt síðustu ár. Þetta hefur leitt til þess að tekjur þjóðarbúsins hafa tekið við sér og eru nú komnar aftur á svipaðan stað og 2006.

Sömuleiðis hefur tekist að draga úr skuldsetningu og veðsetningu þjóðfélagsins. Ráðist hefur verið á skuldsetningu hins opinbera með því að draga úr þjónustu á sama tíma og gjöld hafa verið hækkuð.

Mikill innlendur sparnaður hefur leitt til hás eignaverðs. Þetta hefur meðal annars stafað af því að sparnaðinn er ekki hægt að nýta nema að litlum hluta til fjárfestinga í nýjum tækifærum og hefur leitt til mikillar verðhækkunar á þeim fjárfestingarkostum sem eru í boði, svo sem hluta- og skuldabréfum, og gríðarlegum innlánum lífeyrissjóða. Mikil eftirspurn eftir húsnæði, sem er að hluta til drifin af miklum ferðamannastraumi, hefur haldið fasteignaverði uppi.

Ástand okkar er því þrátt fyrir allar aðgerðir enn brothætt. Við verðum að passa okkur og horfa lengra en þrjú skref fram á veginn.

Grein þessi birtist í Viðskiptablaðinu 4. mars 2015. Höfundur er Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, sérfræðingur á miðlunarsviði Cohn & Wolfe. 

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Burson Cohn & Wolfe hlaut tvenn Global SABER verðlaun

Burson Cohn & Wolfe (BCW) fagnaði við hátíðlega athöfn í Washington D.C. tvennum Global SABER verðlaunum á PROvoke Global Summit 2023. Fyrirtækið var heiðrað fyrir störf sín með Carlsberg og Honest Egg Co. Global SABER verðlaunin eru veitt 40 bestu almannatengslaherferðunum á heimsvísu af PROvoke Media. „Sunken Bar“ með CarlsbergCarlsberg vildi vekja athygli á hættunni

smelltu og lestu »

Byggjum borg tvö – Sel­foss eða Akur­eyri fyrst?

Ekkert er fegurra en hugmynd hvers tími er komin: Akureyrarborg eða? Tilgangur hugmyndarinnar um Akureyrarborg er að draga vald norður og styrkja umboð Akureyringa til að nota það. Önnur borg skapar vonandi valdajafnvægi í landinu sem eykur velferð landsbyggðarinnar. Það verður erfitt að ganga fram hjá borg tvö. Forsendurnar liggja í því sem landshlutinn vill

smelltu og lestu »

Geta gert sáttmála um samtalið

Samfélagið allt virðist loga í illdeilum og geta átökin borist inn á vinnustaðinn Það getur snúist í höndunum á fyrirtækjum að taka afstöðu í hitamálum Grundvallarreglur geta bætt samskiptin Greina má merki um vaxandi spennu í samfélaginu og virðast ótal deilumál hafa náð að skipta landsmönnum í andstæðar fylkingar. Nú síðast hafa átökin á milli

smelltu og lestu »