Breska dagblaðið Daily Mail, samfélagsmiðillinn Snapchat og alþjóðlega fyrirtækjasamsteypan WPP hafa stofnað saman fyrirtækið Truffle Pig. Fyrirtækið framleiðir stafrænt efni með nýstárlegum hætti.
Greint var frá stofnun fyrirtækisins á ráðstefnunni Cannes Lions International Festival of Creativity sem haldin er árlega í Frakklandi. Þetta er einhver stærsta ráðstefna heims innan auglýsingageirans, almannatengsla og hins skapandi geira.
Martin Sorrell, stofnandi og forstjóri WPP, segir um málið á vef WPP, að hinn stafræni heimur sé stútfullur af efni. En neytendur leiti eftir gæðum. Truffle Pig muni sameina það besta sem til er, nýta sér frásagnarformið í sagnahefðinni til að koma boðum áleiðis en um leið styrkja vörumerki viðskiptavina sinna og festa þau í sessi.
Truffle Pig mun birta efni fyrsta kastið á vef Daily Mail, Elite Daily og Snapchat og þróa efnisveituna og boðmiðlunina þar. Í kjölfarið verður efnið birt á öðrum boðrásum.
Forstjóri Truffle Pig er Alexander Jutkowitz, sem áður var forstjóri markaðs-, ráðgjafa- og auglýsingafyrirtækisins Group SJR ásamt því að vera yfir nýsköpunarmálum hjá Hill-Knowlton Strategies. Höfuðstöðvar fyrirtækisins verða í New York í Bandaríkjunum.
WPP er leiðandi fyrirtæki á sviði boðmiðlunar á heimsvísu. Undir fyrirtækjahatti WPP eru fjöldi heimsþekktra fyrirtækja, þar á meðal Ogilvy & Mather Worldwide, Burson-Marsteller, Young & Rubicam og Cohn & Wolfe, sem er með skrifstofu í Reykjavík.