Dýrar 248 krónur
útgefið

Stóra fréttin undanfarna daga er án nokkurs efa matarkostnaður einstaklinga á degi hverjum eins og lagt er upp með í fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra.

Sprengjunni var varpað strax á mánudag þegar Bryndís Loftsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við Fréttablaðið  að samkvæmt frumvarpinu væri gert ráð fyrir því að fæðiskostnaður einstaklings nemi 745 krónum á dag eða 248 krónur fyrir hverja máltíð.

Samkvæmt þessu myndu matarinnkaup fjölskyldunnar vera rúmar 2.980 krónur á dag – sem gera 92.340 krónur á mánuði fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Bryndís var því mótfallin fyrirhugaðri einföldun á virðisaukaskattskerfinu og hækkun á virðisaukaskatti á matvæli.

Fréttin fór sem eldur um sinu um þjóðfélagið. Þessi lága tala – 248 krónur fyrir máltíðina – stimplaði sig inn hjá þjóðinni svo um munaði og var svo komið að ekki var hægt að kaupa nokkurn hlut í matvörubúð án þess að rýna í vöruverð. 

Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík, sagði í samtali við fréttavef Morgunblaðsins, fjárhæðina ekki raunhæfa og benti á að kíló af ýsuflaki kosti 1.700 krónur.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, tók við keflinu af þeim Bryndísi og Margréti á þriðjudeginum og lýsti því yfir í kaldhæðinni færslu á Facebook-síðu sinni að hún hafi sett sér það markmið að lifa á 750 krónum á dag, koma með heimatilbúið nesti í vinnuna og geti hún kannski endað í kjörþyngd.

Rétt skal vera rétt – eða hérumbil…

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra brást ekki vel við tíðindunum og sagði í samtali við fréttum Stöðvar 2 sagði hann forsendur fjárlagafrumvarpsins komnar úr neyslukönnun Hagstofunnar og áhrifin á hækkun virðisaukaskattsins á matvæli á fjárhag heimilanna því ekki vanmetin.

Bjarni sagði orðrétt: „Við erum ekki með aðrar forsendur en þær sem koma út úr neyslukönnun Hagstofunnar og sýna það að útgjöld heimilanna til kaupa á matvöru í dagvöruverslunum er um 16,2 prósent. Og við byggjum á því við þá útreikninga sem við leggjum til grundvallar á tekjuáhrifum frumvarpsins. Síðan erum við með dæmi í frumvarpinu um hvernig þetta kemur út fyrir einstakar fjölskyldur og það byggir allt á þessum sömu neyslukönnunum“. 

Hann benti jafnframt á að þar sé líka tekið tillit til eyðslu fólks í mat utan dagvöruverslana. Því sé langt í frá reiknað með að hver einstaklingur komist af með 248 krónur í mat á dag enda sé það alger tilbúningur og standi ekkert um það í fjárlagafrumvarpinu. 

Óljós viðmið

Fjölmiðlafólk og töluglöggir einstaklingar sem velt hafa málinu fyrir sér í vikunni hafa bent á að á komið er inn á neysluviðmiðin efst á blaðsíðu 15 í fjárlagafrumvarpinu og hafa þeir samkvæmt þeim reiknað út að miðað við að 16% af heildargjöldum heimilanna fari í mat og drykk þá gerði það 745 krónur á einstakling á dag ef miðað er við 31 dag í mánuði. Í máli þeirra kom fram að miðað hafi verið við gamlar upplýsingar enda hafi síðustu upplýsingar úr neyslukönnun Hagstofunnar birst árið 2012. 

Hálfa milljón vantar á ári

Hagstofan blandaði sér í umræðuna  á miðvikudag. Þar á bæ þótt mönnum við hæfi að gera athugasemdir við umræðuna vegna þess misskilnings sem talið var að gætti í niðurstöðum rannsóknar Hagstofunnar á útgjöldum heimila til matarkaupa. Tekið var sérstaklega fram að niðurstöðurnar um matarútgjöld heimilanna sem fjármálaráðuneytið studdist við sé ekki fengin úr rannsókn Hagstofunnar heldur settar fram af ráðuneytinu sjálfu. Fram kom í minnisblaði sem Hagstofan tók saman vegna umræðunnar að útgjöld heimila, þ.e. fjölskyldu með tvö börn, nemur 20,6% af heildarútgjöldum. Það gera 135 þúsund krónur á mánuði í mat og drykk en ekki rúmlega 92 þúsund krónur eins og áður hafði verið greint frá. Þetta gera samtals 1.619.172 krónum á ári. Munar þar um tæpar 43 þúsund krónur á mánuði eða næstum 512 þúsund krónum á ári ef mið er tekið af þeirri upphæð sem nefnd var í umræðunni í vikunni.

Gripin í bólinu?

Málið var ennfremur rætt í Kastljósinu á RÚV á fimmtudag þar sem Bjarni sat fyrir svörum ásamt Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar en þar ítrekaði Bjarni eins og hann hafði áður gert, að í fjárlagafrumvarpinu hafi einungis verið miðað við hlutfall útgjalda heimilanna í mat og drykk sem keyptur var í dagvöruverslun. Miðað við það námu heildarútgjöld fjögurra manna fjölskyldu á árunum 2010 til 2012 1.279.545 krónum á ári. Með sömu útreikningum og Fréttablaðið beitti gerir það 860 krónur á dag eða 286 krónur fyrir hverja máltíð miðað við þrjár máltíðir á dag.

Enn lifði umræðan í Morgunútgáfunni á Rás 2 á föstudag. Þar var því velt upp hver ástæðan hafi verið fyrir því að umræðan um lægri töluna hafi farið á kreik. Hugsanlega hafi verið um mistök að ræða við gerð fjárlagafrumvarpsins sem einfalt hefði verið að leiðrétta. Fáir vilji hins vegar viðurkenna mistök hér á landi og því flumbrugangur ráðið því að rangar upplýsingar fengu að lifa. Hitt var þó talið hafa komið til greina, þ.e. að reynt hafi verið meðvitað að miða við lágar tölur til að gera sem minnst úr matarskattshækkuninni. Sökudólgarnir hafi hins vegar verið gripnir í bólinu og ekki viljað viðurkenna brotið þegar upp um þá komst. 

Komdu hreint fram – notaðu ímyndunaraflið!

Hvað sem öllu líður gripu hugmyndaríkir starfsmenn Nettó á Granda í Reykjavík boltann á lofti. Þar var settur upp kælir með vörum sem taldar voru falla undir forsendur fjárlagafrumvarpsins, svo sem skyr og banana og þær auglýstar sem Bjarna Ben-megrunarkúrinn. Þannig náðu þeir að nýta mál sem farið hafði á flug um samfélagið, til að vekja athygli á sjálfum sér og koma sinni verslun í fréttirnar.

Komdu í veg fyrir misvísandi skilaboð

Umræðan um fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu sýnir að mikilvægt er að koma hreint fram og forðast útúrsnúninga til að koma í veg fyrir misskilning. Cohn & Wolfe er stefnumótandi ráðgjafafyrirtæki sem grundvallar sérfræðiaðstoð sína á aðferðafræðilegri nálgun boðmiðlunar í heimi þar sem miðlun skilaboða verður flóknari og dýrari með hverjum deginum. Aðferðafræðin miðar að því að koma í veg fyrir misvísandi skilaboð. Þau geta verið dýrkeypt ef þau fara á svipað flug og 248 krónurnar gerðu þessa vikuna.

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Hver erum við? Þetta er það sem við getum gert fyrir þig.

Cohn & Wolfe á Íslandi er útibú frá Burson Cohn & Wolfe (BCW) sem er meðal stærstu alþjóðafyrirtækja á sviði samhæfðra boðskipta. Hjá BCW starfa um 4000 manns í yfir 70 löndum á stærstu markaðssvæðum heims. Samsteypunni er stýrt frá höfuðstöðvunum í New York og hefur útibúið á Íslandi löngum notið samvirkninnar innan samsteypunnar. Það

smelltu og lestu »

Burson Cohn & Wolfe hlaut tvenn Global SABER verðlaun

Burson Cohn & Wolfe (BCW) fagnaði við hátíðlega athöfn í Washington D.C. tvennum Global SABER verðlaunum á PROvoke Global Summit 2023. Fyrirtækið var heiðrað fyrir störf sín með Carlsberg og Honest Egg Co. Global SABER verðlaunin eru veitt 40 bestu almannatengslaherferðunum á heimsvísu af PROvoke Media. „Sunken Bar“ með CarlsbergCarlsberg vildi vekja athygli á hættunni

smelltu og lestu »