Almannatenglar eru sundurleitur hópur á Íslandi. Algengur bakgrunnur almannatengils er ótengt nám eða reynsla en örfáir eru þó menntaðir í almannatengslum, boðskiptum eða öðrum samskiptafræðum.
Sem sagt, það gerir mann ekki endilega að almannatengli þótt starfað sé innan sviðsins. Með ólíkan bakgrunn og litlar kröfur til fagmennsku verður sundurleitnin fyrir vikið meira áberandi innan starfsstéttarinnar og skilningsleysi getur ennfremur orðið svo alvarlegt að grundvallaratriðum er fórnað fyrir góðann vilja og framtakssemi.
Grundvallaratriði samskipta
Skoðum málið aðeins. Af hverju skiptir það svona miklu máli að hafa þekkingu á grundvallaratriðum almannatengsla og samskipta til að geta sinnt þverfaglegu starfinu? Hvert er sambandið á milli samskipta manna á milli og almannatengsla?
Fyrsta grundvallaratriðið er það að í báðum tilfellum er stofnað til samskiptanna til að hafa áhrif á mótaðilann. Samskipti manna á milli eru okkur flestum eðlislæg en fæst gerum við okkur grein fyrir því af hverju við eigum í samskiptum með tilteknum hætti. Það er að segja, sjaldnast skoðum við af hverju við gerðum eitthvað svona frekar en hinsegin í samskiptum við annað fólk.
Þar sem megintilgangur almannatengsla er að gera það sama fyrir fólk og fyrirtæki hlýtur að vera ljóst að grundvallarþekking á samskiptum mannfólksins er mikilvæg. Ef við vitum hvað fær fólk til að hlusta og hvernig fólk hugsar þá eigum við auðveldara með að gera skilaboð einstaklinga, fyrirtækja og stofnana skiljanleg.
Annað grundvallaratriðið er það að í ljósi þess að einstaklingar eru orðnir sínir eigin ritstjórar þá er vægi þess að þekkja vel þætti samskipta enn meira en áður.
Mikilvægi þess að vita hvernig við eigum í samskiptum með áhrifaríkum hætti má ekki vanmeta og almannatengill sem heldur að hægt sé að starfa á öðrum grunni er mjög líklega á rangri hillu.
Samantekt fyrir þá forvitnustu um samskipti manna í millum
1. Samskipti eru óumflýjanleg. Það er ekki hægt að eiga ekki í samskiptum. Meira að segja þögn flokkast undir samskipti. Fyrir almannatengilinn gefur þetta frasanum „no comment“ allt aðra merkingu en fyrir þá sem standa utan við fagið. Þá er ótalið að við gefum ýmislegt til kynna, viljandi eða óviljandi með látbragði okkar.
2. Samskipti er ekki hægt að taka til baka. Áhrif þess sem sagt er vara áfram. Það er hinsvegar hægt og rólega hægt að vinna á móti þessum áhrifum með frekari samskiptum. Þetta getur varpað ljósi á hvernig traust er skapað.
3. Samskipti eru flókin. Það er engin leið fram hjá því að viðurkenna það að samskipti eru flókin. Það er alveg sama hvert orðaval okkar er, hvernig við brosum eða setjum í brýrnar – í samhengi við misflóknar aðstæður eru túlkunarmöguleikarnir nánast endalausir. Það nægir að minna á að í tveggja manna tali eru að minnsta kosti sex sjónarhorn uppi. Hver þú heldur að þú sért, hver þú heldur að hin aðilinn sé, hver þú heldur að hinn aðilinn haldi að þú sért, hver hinn aðilinn haldi að hann sé, hver hinn aðilinn haldi að þú sért og loks hver hinn aðilinni haldi að þú haldir að þú sért. Einfalt? Eh. Nei.
4. Samskipti eru háð samhengi. Þetta er ekki til að einfalda hlutina. Samhengið er margslungið og þýðir í raun að það sem sagt er ræðst ekki eingöngu af orðunum og látbragðinu heldur ræðst meining þess sem sagt er af því samhengi sem það er sagt í. Samhengið getur verið fjölbreytt. Menningarlegt samhengi þýðir t.d. að sigurmerki með fingrunum þýðir ekki það sama á milli menningarheima. Sálfræðilegt samhengi þýðir að þarfir, þrár, persónuleiki, gildi og margt fleira hefur áhrif á skilning þess sem sagt er. Sambandslegt samhengi þýðir að látbragð eins og fingurkoss hefur mismunandi merkingu eftir því hvort móður fær hann eða maki. Staðfræðilegt samhengi hefur líka áhrif, t.d. á þann hátt að fólk leyfir sér aðra hegðun á bar heldur en í jarðarför. Og loks mætti til dæmis nefna umhverfislegt samhengi í þeirri merkingu að líðan fólks vegna hita, hávaða, tíma dags og margs fleira hefur áhrif á samskipti þeirra.
Já, almannatenglar eru sundurleitur hópur. Almannatengsl hafa breyst. Stefnulega fjalla nútíma almannatengsl um hagsmuni allra hagaðila. Meira um það síðar.