Bandaríska almannatengslafyrirtækið Cohn & Wolfe hefur keypt hlut í BPG sem er eitt þekktasta almannatengslafyrirtæki í Mið-Austurlöndum með það að markmiði að auka fótfestu sína og sýnileika á svæðinu.
Í kjölfarið mun Cohn & Wolfe opna skrifstofur í Dúbai, Abu Dhabi og Baghdad auk þess að eiga samstarfsaðila í Kaíró og Muscat. Donna Imperato hefur stýrt fyrirtækinu síðan árið 2002 og sér mikla möguleika á svæðinu og vill leiða fyrirtækið til enn frekari stækkunar þar.
„Við höfum mettað markaðinn í Bandaríkjunum og Evrópu og sjáum sóknarfæri við að ná markaðshlutdeild í Asíu og M-Austurlöndum sem verða sífellt mikilvægari markaðssvæði.
Mikil sóknarfæri í Mið-Austurlöndum
Við ætlum að skoða stækkunarmöguleika okkar í Asíu þar sem við náðum aukinni markaðshlutdeild á síðasta ári auk þess að skoða Mið-Austurlöndin, Afríku og Suður-Ameríku. Stóru vaxtarmöguleikarnir núna eru hins vegar í Mið-Austurlöndum og Asíu,“ að sögn Donnu Imperato.
Imperato sagði að samruninn við BPG gerði það auðveldara að verkum fyrir Cohn & Wolfe að bjóða bandarískum og evrópskum viðskiptavinum sínum ráðgjöf í Mið-Austurlöndum.
„Þetta byrjaði á því að tveir af viðskiptavinum okkar spurðu hvort við værum með starfsemi í þessum heimshluta og þar sem við vorum einungis með samstarfsaðila á svæðinu varð mér ljóst að ef við ætluðum að fá stóra alþjóðlega viðskiptavini þurfum við að bjóða topp þjónustu í Mið-Austurlöndum.
Við viljum stækka netverk okkar á svæðinu og geta sett viðskiptavini okkar í samband við fólk sem þekkir svæðið vel, mjög vel.“
Spennandi tímar framundan
Imperato segir að áhersla fyrirtækisins á þessum markaðssvæðum sé svar við aukinni eftirspurn viðskiptavina sem sjá mikil sóknarfæri á svæðinu þar sem þroskaðri markaðir í Evrópu og Bandaríkjunum séu mettaðir vegna bágborins efnahagsástands.
„Ég held að M-Austurlönd verði sérstaklega mikilvægt markaðssvæði núna. Margir viðskiptavina okkar hafa náð ákveðinni mettun í Bandaríkjunum og Evrópu þannig að þeir eru farnir að hugsa með sér hvert þeir eigi að sækja til að stækka og fara þess vegna inn á markaðssvæði eins og Asíu og Mið-Austurlönd. Þannig hugsa viðskiptavinir okkar.“