Velkomin í nýjan heim boðskipta
Cohn & Wolfe er alþjóðafyrirtæki á sviði almannatengsla, með fimmtíu stofur starfandi á stærstu markaðssvæðum heims. Við bjóðum sérhæfða þjónustu í boðskiptum og leiðandi nýjungar í jafnt hefðbundinni sem stafrænni miðlun upplýsinga. Náin snerting við alla helstu strauma og stefnur samtímans veitir okkar einstaka aðstöðu til stöðugrar þróunar og endurnýjunar.
Við byggjum vörumerki
Þó að starfssvið okkar heyri undir almannatengsl, snýst starfsemi okkar um hugmyndasmíði sem byggir upp og styrkir vörumerki viðskiptavina okkar á breiðum miðlunargrunni. Hjá okkur tekur boðmiðlun og hönnun skilaboða mið af þeim markhópum sem í hlut eiga og með því að laga réttu skilaboðin hverju sinni að bæði miðli og móttakanda leggjum við grunn að varanlegum markaðsárangri. Tvinnuð saman við vandaða stefnumörkun nýtist þessi öfluga aðferðafræði okkar á öllum stigum samhæfðrar boðmiðlunar.
Skapandi. Frá grunni
Skapandi hugsun hefur frá upphafi verið aðalsmerki Cohn & Wolfe. Hún er hluti af okkur. Við gætum markvisst að þessari sérstöðu okkar, meðal annars með því að fjárfesta í leiðandi hugmyndasmiðum, alþjóðlegu samskiptaneti og færni starfsmanna í skapandi starfsaðferðum.
Það er einfaldlega ekki hægt að smíða góðar hugmyndir eða hleypa af stokkunum viðamiklu verkefni án þess að góður skilningur á lögmálum upplýsingamiðlunar liggi að baki. Hjá Cohn & Wolfe rýnum við vandlega framleiðendur og neytendur hvers fjölmiðlakerfis, með skilning fyrir augum á því upplýsingastreymi sem það gengur fyrir. Upplýsingar eru mikilvægasta uppspretta skapandi boðskipta. Við erum ein af fáum stofum sem býr yfir vönduðum greiningartækjum og öflugu fagfólki á sviði almannatengsla.
Við stöndum við stóru orðin. Í The Holmes Report, einu virtasta fagtímariti almannatengslageirans, segir: „Fyrirtækið er best þekkt fyrir sköpunargáfuna, en það sér þó ekki sköpunina sem eitthvað frjálst og tilfallandi, eins og tíðkaðist áður fyrr. Sköpunin er afrakstur agaðs ferlis og Cohn & Wolfe hefur komist eins nálægt því að ná tökum á því ferli og nokkurt almannatengslafyrirtæki hefur komist.“
Stafrænir yfirburðir
Með innreið stafrænna miðla eru fyrirtæki komin í þá stöðu að þau hafa ekki efni á aðgerðaleysi gagnvart þessu nýja og krefjandi umhverfi. Dagblöð, tímarit og sjónvarp og hefðbundnir miðlar sem við höfum treyst svo lengi á, hafa ekki sömu áhrif og áður. 24 stunda fréttahringrásin er að líða undir lok. Neytendur snúa sér í sífellt ríkari mæli að leitarvélum, jafningjum og dómstóli götunnar. Þess vegna er þörfin brýn á nýjum leiðum í markaðs- og kynningarmálum.
Word Class Digital MediaTM er aðferðafræði sem Cohn & Wolfe hefur þróað með það fyrir augum að gera fyrirtækjum kleift að laga sig að þessari síkviku fjölmiðlun internetsins. Við finnum leiðir sem gera viðskiptavinum okkar kleift að breyta hefðbundinni einstefndri markaðsfærslu í gagnvirk boðskipti.
Þessi gagnvirka aðferðafræði byggir á aðgerðum sem við höfum þróað í nánu samstarfi við leiðandi fyrirtæki eins og Dell, Nike, SAS, Proctor & Gamble, Red Lobster, Genentech, Merck og M.D. Anderson.