Hreinsaðu vinnsluminnið. Sofðu vel og taktu til í heilanum
útgefið

Á hverju kvöldi slökkvum við á okkur og föllum í nokkurs konar meðvitundarleysi sem við köllum svefn. Þetta er furðulegt fyrirbæri og kann að virðast órökrétt frá náttúrunnar hendi. Hvers konar náttúruval er það sem leitt hefur til að við liggjum varnarlaus og með skynfærin hálflömuð stóran hluta lífsins?

Svefn er mikilvægur. Það eru fáir sem efast um það en hingað til hefur ekki verið ljóst af hverju. Tilraunir á músum hafa t.d. sýnt að mýs sem sofa ekki deyja mun fyrr en þær sem sofa eðlilega en ekki hefur verið hægt að rekja ótímabæran dauða þeirra til ákveðinna sjúkdóma.

En nú virðast vísindamenn frá Háskólanum í Rochester fundið sterkar vísbendingar um ástæður fyrir mikilvægi svefns. Fræðimenn tala um stóran áfanga eða tímamót á sviði svefnrannsókna.

Það er fullt starf að skynja og skilja hversdagsleikann

Daglegar athafnir reyna heilmikið á heilann. Hann er sífellt að taka á móti gögnum, flokka þau og greina, forgangsraða, vinna úr þeim og bregðast síðan við á einhvern hátt. Þetta er mjög flókið verkefni.

Þegar heilinn er í vinnunni eiga sér stað efnaskipti eins og í öðrum líffærum. Við slík efnaskipti verða alltaf til aukaafurðir og úrgangur. Þennan úrgang þarf heilinn að losa sig við. Það þarf að taka til.

Ein slík aukaafurð eru svokallaðir Beta-amyloid flekkir. Uppsöfnun þeirra er nú talin einn af orsakaþáttum í þróun Alzheimer-sjúkdómsins og hugsanlega annarra heilabilunarsjúkdóma.

Hleypum hreinsunardeildinni að

Mikilvægt er að henda út úrganginum og aukaafurðunum sem verða til við efnaskipti heilans. Rannsóknir vísindamannanna í Rochester bentu til að slík hreinsun gengi mun hraðar fyrir sig í svefni eða þegar dregið væri úr virkni heilans að miklu leyti.

Þeir komust að því að heila- og mænuvökvi flæðir hraðar um sofandi heila en fullvirkan. Það er rakið til þess að ákveðnar taugafrumur í miðtaugakerfinu dragast saman í hvíldarástandi og auka þar með aðgengi hreinsunardeildarinnar að krókum og kimum heilans.

Það er ekki hægt að halda uppi stuðinu í partýinu og taka til eftir það á saman tíma. Og skúringafólkið mætir yfirleitt ekki á skrifstofuna fyrr en ys og þys dagsins er lokið og búið er að slökkva á tölvuskjánum.

Getur of lítill svefn leitt af sér sjúkdóma?

Áðurnefnd rannsókn bendir til að hreinsun heilans gangi allt að tuttugu sinnum hraðar í svefni en vöku. Út frá því má álykta að ónógur svefn geti leitt til uppsöfnunar á úrgangsefnum.

Það virðist rökrétt að álykta að slík uppsöfnun geti dregið úr virkni heilans og vísbendingar eru um að slíkt geti aukið líkurnar á heilabilunarsjúkdómum. Sterkar tengingar hafa t.d. fundist milli þróunar Alzheimer-sjúkdóms hjá einstaklingum og svefntruflana fyrr á ævinni.

Þessar rannsóknir staðfesta ekki bara enn og aftur mikilvægi svefns heldur gefa líka sterkar vísbendingar um af hverju hann er svona mikilvægur. Og það gefur okkur enn eina ástæðuna til þess að hvíla okkur vel og sofa til að nýta sem best það litla vit sem við höfum í kollinum.

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Handaband