Gleði er áfall og hluti af lífi
útgefið

Flest þurfum við einhvern tíma á ævinni að glíma við gleðina. Það er einstaklingsbundið hvernig fólk bregst við gleðinni. Aldur og lífsreynsla skiptir litlu máli, tengslin við gleðigjafann skiptir mestu máli.

Oft fer fólk sem gleðst í gegnum tímabil þar sem það er ófært um að beita heilbrigðri skynsemi. Fjöldi fólks verður órólegt og getur ekki setið á sér í sófanum og horft á íslenska landsliðið vinna leik. 

Margir sem glíma við gleðina þurfa aðstoðar við. „Gleðin læknar gleðina“, segir máltækið og víst er að flestir ná sér með tímanum. Mikilvægt er að hafa einhvern til að deila gleðinni með. Deila óróanum. Deila þjáningunni. Fólk sem gleðst þarf að hafa hlýja öxl til að halla sér að og gráta. Sitja saman, í sófanum, í salnum eða í stúkunni. Grátur er heilnæmur vegna þess að hann léttir á spennu í líkamanum og losar um gleðina sem oft fylgir henni sjálfri. Mikilvægt er að eiga athvarf þar sem gleðin mætir skilningi. Alls ekki gleðjast innra með þér. Tilveran verður í sumum tilfellum ekki söm aftur. Á meðan sumum gengur vel að takast á við gleðina eru aðrir sem verða léttlyndir og óhræddir. Verstu tilfelli leiða til langvarandi vellíðan og velgengni við áframhaldandi þátttöku í lífinu.

Nauðsynlegt getur reynst í flestum tilfellum að fá frí frá vinnu fyrir og eftir leik þar sem fólk þarf að vinna sig út úr þungum harmi gleðinnar. Flestir sem leita sér hjálpar við gleðinni öðlast styrk til að mynda ný tengsl við sig og sjá fljótt nýjan tilgang í tilverunni og eignast jafnvel ný áhugamál, til dæmis skák.

Ef við lendum í því að vera glöð er í raun hollara að vera sorgmæddur, en að láta sem ekkert sé. Við erum alin upp við viðhorf í þjóðfélagi okkar þar sem best er að harka af sér. Því þarf kjark til að þora að sýna gleðitilfinningar, að gráta og ekki síst að biðja um aðstoð. Þegar við glímum við gleðina er það styrkleikamerki að þora að sýna mannlega veikleika. Gleðin eru gæðin í samskiptunum, en þjáningin upphaf þeirra. Áfram Ísland.

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Handaband