Þrátt fyrir að íslenska stjórnkerfið sé lítið í samanburði við það sem milljónaþjóðfélög reka þá getur orðið tafsamt fyrir einstaklinga að leita þar réttar sín eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Talsverða sérfræðiþekkingu og yfirlegu þarf til að skilja lög og reglugerðir sem taka til samskipta borgaranna við stjórnsýsluna og enn tafsamara getur verið að átta sig á samspili regluverks og stjórnsýslu.
Að ekki sé talað um að skilja hverjir um véla þegar þarf að koma sjónarmiðum og ábendingum á framfæri. Þó að til séu bæði lög og reglur um samskipti borgaranna og ábyrgð stjórnsýslunnar þá er mikill misbrestur á að það gangi skilmerkilega fyrir sig. Það er ekki að ástæðulaus að menn hafa valið stjórnkerfinu ýmis lýsandi heiti, svo sem „báknið,“ „skrifræðisveldi“ eða nú síðast „djúpríkið.“
Margir einstaklingar og fyrirtæki bregða á það ráð í vandræðum sínum að leita til aðila sem hafa þekkingu og kunnáttu í því að hafa samskipti við stjórnsýsluna. Einhverja sem geta þannig aðstoðað almenning, fyrirtæki eða hagsmunaaðila við að koma sjónarmiðum eða ábendingum á framfæri. Hagsmunagæsla er þannig fyrst og fremst hluti af því aðhaldi sem þarf að ríkja gagnvart stjórnvöldum, ekki síður mikilvæg en fjölmiðlarnir.
Nú vill stjórnsýslan setja utan um þetta nýtt regluverk sem hún auðvitað hefur sjálf eftirlit með og stýrir eins og birtist í frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands (Varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds/ mál nr. S-168/2019) sem forsætisráðherra hefur lagt fram til kynningar. Í frumvarpinu er lögð til skráningarskylda, aukið skrifræði og nýtt eftirlitskerfi með þeim borgurum sem þurfa að fást við stjórnsýsluna. Um leið liggur fyrir að hvergi meðal OECD ríkja er flóknara regluverk en hér á landi. Væri ekki nær að einfalda og gera stjórnsýsluna gagnsærri? Við sjáum skýra tilhneigingu til þess innan stjórnsýslunnar að loka sig af og auka þannig það vald sem sérfræðiþekkingin færir henni. Sem um leið kallar á meiri hagsmunagæslu þar sem borgararnir þurfa stöðugt að verja sig gagnvart nýjum reglum og stjórnvaldsákvörðunum.
Því má spyrja sig, er lausnin við slíkum vandkvæðum að búa til enn meira skrifræði og regluverk? Þannig að stöðugt fleiri borgarar í landinu verði skráðir í skjalasafn ríkisins út frá meintum hagsmunum sínum. Trúa menn því virkilega að þetta sé leiðin til að efla gagnsæi og skilvirkni í samskiptum borgaranna við stjórnsýsluna? Á sama tíma má sjá tilhneigingu hjá stjórnvöldum til að loka á upplýsingastreymi og þrengja að upplýsingalögum. Einstaka stofnanir ríkisins telja sig augljóslega vera hafna yfir þá gagnsæisskyldu sem upplýsingalögum fylgir. Væri ekki nær að auka gagnsæi í landinu og vinna þannig gegn spillingu, heldur en að auka á skráningarskyldu þeirra sem þurfa að fást við stjórnsýsluna?