Eiga almannatenglar að sjást?
útgefið

Erlendis er hörð um ræða um hvort almannatenglar eigi að tjá skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Hér á Íslandi er þessu öðruvísi farið því margir íslenskir almannatenglar hika ekki við að draga sig í flokka og njóta sviðsljóssins.

Erlendum sérfræðingum þykir þetta oft merkilegt, ekki síst vegna smæðar landsins og innbyrðis tengsla. 

Þeir sem komast að því að erlendis hiki almannatenglar við að tjá skoðanir sínar verða stundum hissa. Þeim þykir sérkennilegt að sérfræðingar í að kenna öðrum að lýsa skoðunum sínum skuli forðast að tjá sínar eigin skoðanir. Almannatenglar eiga það flestir sameiginlegt að vilja helst vinna á bak við tjöldin, fjarri sviðsljósinu. En af hverju ætli það sé? Af hverju vilja þeir sem vinna við að ota öðrum ekki fara fram á völlinn sjálfir? 

Það eru eflaust margar ástæður fyrir því. Ein þeirra stærst er sú að ef almannatengsl eru vel unnin tekur enginn eftir þeim. Þetta er sambærilegt við fótboltadómara – ef hann sinnir starfi sínu vel talar enginn um hann, ef hann er lélegur verður hann aðal umræðuefnið eftir leikinn.  En fleira kemur til. 

Almannatengill er líka sölumaður og sáttasemjari. Hann vill síður fæla frá tilvonandi kúnna með því að lýsa yfir pólitískum skoðunum og síst vill hann fæla frá núverandi kúnna með því að tala um hluti sem geta stuðað hann eða eru jafnvel andstæðir hans hagsmunum eða sjónarmiðum. Það eiga margir erfitt með að greina á milli persónulegra skoðana og faglegra skoðana.

Faglegar skoðanir – faglegt álit – hefur ekkert með persónulegar skoðanir almannatengilsins að gera. Almannatengill, sem einhver akkur er í, getur séð marga fleti máls og verður að geta talað fyrir þeim öllum. Svipað og ræðulið í Morfís verður að geta sannfært áhorfendur um skoðanir sem liðsmenn hafa jafnvel ekki. Þetta eiga margir erfitt með að skilja og segja jafnvel að með þessu séu almannatenglar að selja sál sína. Ekkert gæti verið fjær lagi.

Almannatenglar hafa flestir sett sér strangar siðareglur sem þeir fara eftir. Þeir gera ekkert sem telst ólöglegt, þeir sinna ekki verkum sem fara gegn almannahagsmunum og þeir fara í hvívetna eftir lögum. En rétt eins og lögfræðingar, starfsmenn í heilbrigðiskerfinu og blaðamenn skilja þeir að þeirra persónulegu skoðanir hafa ekkert með vinnuna að gera. Hvernig færi fyrir lögfræðingi með sterkar skoðanir á umferðaröryggi en neitaði að verja mann sem keyrði of hratt? Hvað yrði sagt um lækni sem tilheyrði vottum jehóva og neitaði að gefa sjúklingi blóð?

Er þessi ótti við að stuða, ótti við að blanda saman persónulegum skoðunum og faglegum réttlætanlegur? Á hann að ráða öllum gjörðum ráðgjafans? Ef almannatengill trúir því að kúnni hans eigi að tjá skoðanir sínar, eigi að koma sér á framfæri á hann þá ekki að fylgja þeim ráðum sínum sjálfur? Getur hann tekið áhættuna? Svarið hlýtur að vera já.

Almannatenglar vita að fólk er allskonar, eins og stjórnmálamaður sagði einu sinni, og þeir vita að fólk sinnir flest störfum þar sem ekkert pláss er fyrir persónulegar skoðanir. Af hverju ætti þetta sama fólk ekki að skilja það um almannatengla? 

Í dag, þegar það er liðin tíð að þjóðin safnist fyrir framan sjónvarpið og allir horfi á það sama, er mikilvægt að vera sýnilegur sem víðast. Öflug notkun á samfélagsmiðlum, ör birting efnis á vefsíðum og þátttaka í umræðuþáttum í útvarpi og sjónvarpi styrkja þann sem vill vera sýnilegur. Með þessu hættir almannatengillinn samt á að vera stimplaður í einu liði frekar en öðru, vera „flokksmaður“. En hann verður að taka þá áhættu og trúa því að fólk, væntanlegir kúnnar, er skyni borið og getur skilið á milli persónulegra skoðana og faglegra. 

Eins og áður sagði á þessi umræða ekki við um Ísland þar sem fáir almannatenglar hika við að tjá skoðanir sínar. Hér væri kannski ráð að taka umræðuna á hinn veginn og íhuga hvort rétt sé, eins og sumir kjósa að gera, að vinna „behind the client,“ vera bakland viðskiptavina sinna án þess að vera í sviðsljósinu sjálfir.  Það má vel velta því fyrir sér hvort íslenski almannatengillinn sé of fyrirferðarmikill á sviðinu og hvort skoðanir hans geti smitast yfir á viðskiptavinina.

 

Nýjast á Úlfaslóð

Um miðlun hins opinbera á upplýsingum og málpípuorgelin

Um miðlun hins opinbera á upplýsingum og málpípuorgelin

Í byrjun ágúst varð deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans, fyrrverandi blaðamaður, fyrir gagnrýni vegna tölvupósts sem sendur var á starfsfólk spítalans sem fjölmiðlar túlkuðu sem tilraun til að hindra samskipti starfsfólksins við fjölmiðlana. Fjölmiðlar tóku þetta eðlilega óstinnt upp en símanúmer Morgunblaðsins og RÚV voru sérstaklega nefnd í tölvupóstinum sem dæmi um símanúmer sem mætti forðast hringingar

smelltu og lestu »
woman in black shirt holding white plastic bottle

Covid-19 jók netnotkun heimsins. Hvað gerðist á Íslandi?

Covid-19 faraldurinn hefur leitt til aukningar á notkun snjalltækja og breyttrar hegðunar fólks á netinu um allan heim. Ísland er engin undantekning en mörg fyrirtæki tóku meðal annars upp heimsendingar, lækkuðu verð og juku úrval vara á netinu svo eitthvað sé nefnt. Þess má geta að 92% landsmanna notuðu Facebook í maí og 70% Youtube

smelltu og lestu »