Frumskógur lénaskráninga þéttist enn
útgefið

Fyrir nokkru var fjallað um það hér hversu mikilvægt er að vernda vörumerki sín á netinu. Þar voru raktar nokkrar helstu aðferðir þrjóta til misnotkunar og hvernig vinna má gegn þeim.

Þetta er enn viðfangsefni forvarna á netinu. Með útgáfu á nýjum endingum léna flækist málið enn frekar. Það er semsagt ekki lengur nóg að eiga .com, .org, .net og hefðbundin landslén eins og .is.

Mettun í .com kallar á nýjar endingar

Nú er orðið nánast ómögulegt að fá lén með .com endingu nema það sé þeim mun lengra eða flóknara í samsetningu. Af þessum sökum hafa verið gefnar út nýjar endingar léna á síðustu árum og þær boðnar út.

Dæmi um nýjar endingar eru .hotel og .bank. Ekki er reyndar hægt að verða sér út um slíka endingu nema fyrir viðurkenndan rekstur í hótel- eða bankastarfsemi eins og eðlilegt mætti teljast.

Google var ekki lengi að tryggja sér réttinn á .google og hyggst ekki bjóða endinguna á almennum markaði. Sama á við um endinguna .book sem Amazon tryggði sér í útboði.

Endingin .sucks er umdeild

Talsverð umræða hefur skapast um endinguna .sucks sem gefin var út á síðasta ári. Sagt er að pælingin bak við þá endingu sé að stofnanir og aðgerðahópar geti nýtt sér slíka endingu t.d. í baráttu gegn krabbameini (cancer.sucks) eða rasisma (racism.sucks).

Það er hins vegar ekki útilokað að netdólgar notfæri sér það til að hrekkja eða kúga fyrirtækjaeigendur með kaupum á lénum sem tengjast fyrirtækjum eða vörumerkjum með þessa endingu (fyrirtækið.sucks, vörumerkið.sucks).

Einnig hafa rétthafar .sucks verið gagnrýndir harðlega fyrir setja himinháan verðmiða á lén með þessari endingu eða allt að 2.500 Bandaríkjadollara. Slíkur verðmiði ætti reyndar að hrekja í burtu flesta hrekkjalóma.

Endingar sem tengjast klámi hringja viðvörunarbjöllum hjá frægum

Nýjustu útgáfur lénaendinga eru t.d. .porn og .adult. Þar er pælingin að fólk geti gengið að efni sem tengist þessum orðum með beinum hætti án þess að velkjast í nokkrum vafa um hvað þar er á ferðinni.

Þessi útgáfa hefur hringt viðvörunarbjöllum hjá frægum enda hafa þeir vörumerki að verja. Sumir hafa einnig þegar orðið fórnarlömb hefndarkláms eins og frægt er orðið.

Nýlega var frá því grein í LA Times að stjörnur eins og Beyonce, Paris Hilton og Justin Bieber hafa öll keypt lén með sínum nöfnum og endingunni .porn. Tilgangurinn er væntanlega forvörn. Þ.e. þau ætla koma í veg fyrir að aðrir kaupi þess lén og misnoti þau.

Ekki skal fullyrt að þau hafi lesið greinina „Verndaðu vörumerkið þitt á netinu“ en þau hafa a.m.k. sýnt fyrirhyggju og tekið skynsamlegt skref í forvörnum og þar með minnkað líkur á krísu.

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Handaband