Ekki allir fela mistök. Loforð um góð viðskipti grundvallar viðskiptin
útgefið

Viðhorf eins forstjóra meðalstórs fyrirtækis til bloggheimsins endurspeglar kannski almenn viðhorf forstjóra til þessa samskiptamáta.

Þau viðhorf virðast hinsvegar frekar markast af hræðslu eða ótta við hinar óbeisluðu hliðar bloggsins fremur en að sjá í þeim tækifæri og möguleika. 

Slíkt var allavega viðhorf áðurnefnds forstjóra. Þegar hann var spurður hvort hann bloggaði brást hann reiður við, varð dreyrrauður í framan og hreytti út úr sér fúkyrðum í garð þessarar boðleiðar og í leiðinni til þeirra sem ástunda bloggið. Forstjórinn sagðist fyrr dauður liggja en að hann færi að blogga og taldi að það væri hið almenna viðhorf hjá kollegum hans. Hann benti jafnframt á nauðsynleg inngrip stjórnvalda til að koma böndum á þetta skrímsli og að hvorki hann né hans fólk kæmu „nálægt þessu fyrirbæri“.

Forstjórinn taldi að enginn skyldi hætta sér út í forarpytti bloggheima, þar væru fyrir einstaklingar sem hefðu ekkert þarfara við tímann að gera en að ausa annað fólk aur og drullu og nefndi sérstaklega athugasemdakerfi DV í því samhengi.

Það er hægt að taka undir með forstjóranum um að flestir telji bloggið hættulegt ímynd fyrirtækja og stofnana. Bloggið sem slíkt er ekki hættulegt frekar en annað. Bloggið er jafn vænt ímynd þeirra og það er hættulegt. Reyndar mun vænna. Það er reyndar frábært tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki. Ef stjórnendur fyrirtækja telja bloggið hættulegt sér og öðrum þá er það vísbending um að boðskiptaferli fyrirtækja þeirra séu ekki fullmótuð. Meðan svo er má ætla að fyrirtækin sjálf viðhaldi meintu hættuástandi. Þessi fyrirtæki skilgreina sennilega ekki sókn sem vörn.

Það eru til framsækin fyrirtæki sem skilgreina sóknina. Hjá þeim eru boðskipti upphaf og eftirfylgni allra viðskipta. Þau eru úthverf, ekki innhverf. Þau trúa að tilvistin byggist á samskiptum við fólk – á forsendum beggja aðila.

Bloggið, einsog annað, getur bara verð hættulegt þeim sem ekki kunna til verka. Til dæmis fyrirtækjum og einstaklingum sem telja sig ekki gera misstök. Skilgreina sig fórnarlömb ef eitthvað bjátar á.

Dæmi um slíkt gæti verið óánægður viðskiptavinur sem bloggar um samskipti sín og fyrirtækis. Hann hermir leiðindamistök upp á fyrirtækið og notar kjörorð fyrirtækisins sér til stuðnings um að það lofi meiru en það geti staðið við. Því má hinsvegar ekki gleyma að þeir sem aldrei gera mistök eru ekki að gera eitt né neitt. 

Bloggið frá sjónarhorni fyrirtækja

Það er sama hver á í hlut séu mistök gerð; starfsmenn fyrirtækis, fyrirtækið í heild eða viðskiptavinir þess. Einhver kraftur drífur þá hegðun að vilja helst ekki viðurkenna mistök en gera þó ófrávíkjanlega kröfu um að aðrir viðurkenni þau.

Mörg fyrirtæki vilja helst af öllu þegja sín misstök í hel, í von um að þau gleymist. Mistök eru slæm fyrir ímyndina enda ekki hægt að kaupa gott orðspor. Það þarf ekki heldur að kenna starfsmönnum að halda kjafti sem er alltof algengt. Starfsmenn fela mistökin í von um að ekki komist upp um þá. Viðskiptavinirnir sitja hinum megin við borðið tilbúnir til að ljúga um eigin mistök í þeim tilgangi að varpa ábyrgðinni á fyrirtækið. Hann veit hversu viðkvæmt orðspor fyrirtækja er.

Staðreyndin er sú að ef maður kann til verka þá er blogg frábær boðleið, frábært verkfæri. Hið sama á við um slípirokkinn. Ef maður kann ekki að nota hann þá er maður fljótur að skemma eitthvað. Það þýðir hinsvegar ekki að maður geri ekki við hluti. Maður fær einfaldlega einhvern sem kann á slípirokkinn til að vinna vinnuna.

 

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Handaband