Lækkun lántökukostnaðar nægir ekki til að örva bílamarkaðinn
útgefið

Bílafjármögnunaraðilar, sem flestir eru bankar, auglýsa reglulega 50% afslátt af lántökugjöldum ef keyptur er nýr bíll. Fjármögnun nýrra bíla hefur dregist mikið saman síðustu ár samfara samdrætti í bílasölu.

Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu er bílafloti Íslendinga orðinn með þeim elstu í Evrópu,  tæplega 12 ára, og virðist enn vera töluvert í land að þeirri þróun verði snúið við ef tekið er mið af fjölda nýskráðra bíla í september 2013.

Árin fyrir hrun var fjöldi nýskráðra fólksbíla á bilinu 16.000 til 18.000 á ári en árið 2009 fækkaði þeim niður fyrir 3.000. Þeim hefur svo verið að fjölga aftur síðustu ár. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs er fjöldi nýskráðra fólksbíla orðinn 5.868 talsins og er salan sem af er ári 33 bílum færri en á sama tímabili í fyrra.

Bílgreinasambandið reiknar með að sala á nýjum fólksbílum verði í kringum 8.500 bílar í ár og er það heldur meiri sala en í fyrra en þá seldust tæplega 8.000 fólksbílar. Áætlað er að endurnýjunarþörfin á fólksbílum á Íslandi sé um 14.000 bílar á ári.

Af nýskráðum fólksbílum sem af er þessu ári er helmingurinn seldur til bílaleiga. Þannig hafa í raun aðeins um 3.000 nýir bílar verið seldir á almennum neytendamarkaði.

Bílafjármögnunaraðilar fara ekki varhluta af þessari þróun. Eðli málsins samkvæmt takmarkast fjármögnun nýrra bíla við fjölda nýskráninga og þeim hefur fækkað um 8-10.000 á ári. Umsvifin hafa því minnkað mikið.

Fimm fjármögnunaraðilar á markaðnum

Fimm fyrirtæki á íslenskum fjármálamarkaði auglýsa og kynna fjármögnunarþjónustu fyrir fólksbíla: Ergó – fjármögnunarþjónusta Íslandsbanka, Bíla- og tækjafjármögnun Landsbankans, Arion – bílafjármögnun, Lykill sem er í eigu MP banka og Lýsing.

Samkvæmt tölum af fjármálamarkaðnum eru Ergó og Landsbankinn með yfir 90% hlutdeild í fjármögnun nýrra bíla sem af er ári. Ergó er með um 53% hlutdeild og Landsbankinn með um 40%.

Þessi tvö fyrirtæki hafa hingað til markaðssett og auglýst sína fjármögnunarþjónustu hvað mest en þau búa að hvað mestri þekkingu og reynslu á þessum markaði.

Lykill er nýtt fyrirtæki sem hefur verið byggt upp frá grunni og Arion banki virðist ekki leggja mikla áherslu á þennan þátt í fjármálaþjónustu sinni.

Flestir þurfa á bíl að halda. Bíllinn er mikið þarfaþing fyrir hina hefðbundnu fjölskyldu, stundum sagður vera þarfasti þjónninn og er þá vísað til gamalla tíma þegar hesturinn gegndi því mikilvæga hlutverki að koma fólki á milli staða.

Það kostar peninga að kaupa og reka bíla, sérstaklega ef þeir eru gamlir. En það þarf fleira að koma til en lækkun lántökukostnaðar til að örva markaðinn. Fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja í landinu þarf að batna, vextir að lækka og hagvöxtur að aukast.

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Handaband