Étt´ann sjálfur – íslensk umræðuhefð á tímum þrenginga
útgefið

Sapera aude! – Immanuel Kant

Þegar talað er um íslenska umræðuhefð dettur mörgum íslensk stjórnmál fyrst í hug. Enda hafa þau verið kölluð ýmsum nöfnum þar sem þau hafa jöfnum höndum verið uppnefnd og bínefnd. Dæmi um slíkt eru „samræðustjórnmál“, „átakastjórnmál“ og fleira í þeim dúr þegar mönnum blöskrar sandkassaleikurinn á þinginu.

Í þessum pistli verður íslensk umræða skoðuð út frá nokkrum þáttum eins og hvernig hún er iðkuð á þinginu, í blöðunum og hvernig hún birtist á net- og samfélagsmiðlum. Það síðasta sem verður skoðað hér er svo hvort íslensk umræðuhefð hafi eitthvað breyst á þeim árum sem liðin eru frá efnahagslegu hruni þegar öngþveiti og svartsýni saug íslensku þjóðina inn að merg.

Við höfum valið að nota orð Kants sem einkunnarorð þessa pistils þar sem hann hvetur menn til að nota hyggjuvitið, að hafa hugrekki til að nota eigin skynsemi. Að mörgu leyti má rekja upphaf orðræðu borgaranna á opinberum vettvangi til þeirrar vakningar sem átti sér stað í álfunni við dögun upplýsingarinnar sem reis gegn kreddufestu andlegra og veraldlegra yfirvalda og kúgun borgaranna. Í ritgerðinni „Hvað er upplýsing?“ segir Kant á einum stað:

Upplýsing er lausn mannsins úr viðjum ósjálfræðis sem hann á sjálfur sök á . . . getuleysis til að nota eigin skynsemi án handleiðslu annarra. Slíkt ósjálfræði kalla ég ‘sjálfskapað’ ef það stafar ekki af skorti á skynsemi heldur af vöntun á hugrekki og einurð til að nota skynsemi sína án handleiðslu annarra. Sapere aude! Hafðu hugrekki til að nota eigin skynsemi! Þetta eru því kjörorð upplýsingarinnar.

En færum okkur norðar í álfuna og beinum sjónum okkar aftur að Íslandi. Ætli hvatningin sem Kant blæs lesendum sínum í brjóst hafi náð eyrum Frónbúans og skilað sér í meiri yfirvegun og sannleiksást fólks sem tjáir sig á opinberum vettvangi.

Afnám flokksblaðanna og eignarhald fjölmiðla

Margir muna eftir þeim árum þegar flokksblöðin voru og hétu. Það var hægt að ganga að því vísu að þau endurspegluðu pólitíska afstöðu eigenda sinna enda blaðamenn og ritstjórar þeirra rammpólitískir. Menn lásu einfaldlega stefnu flokkanna í blöðunum. Gott dæmi um slíkt er innganga Íslands í NATÓ þar sem Þjóðviljinn kallaði þá sem aðstoðuðu lögreglu, hvítliða, eftir að til átaka kom fasista en Morgunblaðið talaði um andstæðinga NATÓ-aðildarinnar sem „trylltan skríl“.

Hvað svo sem mönnum fannst um pólitískar skoðanir tiltekinna flokksblaða vissu menn þó alltaf hvar menn stóðu. Eins og menn vita er landslagið á fjölmiðlamarkaði í dag allt annað. Mikið hefur verið talað um ábyrgð fjölmiðla í aðdraganda hrunsins, að eigendur þeirra hefðu um of verið tengdir fjármálafyrirtækjum sem hefði grafið undan gagnrýni blaðanna í fréttaflutningi af fyrirtækjum og fjármálastofnunum.

Stemningin á Alþingi

Það er stundum sagt um menn að þeir hafi munninn fyrir neðan nefið. Í raun þýðir það að vera góður í að fara í manninn, einstaklinginn, og koma á hann höggi í stað þess að svara efnislega þeim ábendingum og athugasemdum sem fram koma. Það er ekki gott að átta sig á þessu þar sem hin íslenska umræðuhefð sker sig svo mjög úr gagnvart nágrannaþjóðum okkar. Kannski er ein skýringin fámennið eða að það sé einfaldara að fara í manninn heldur en að reyna að komast að niðurstöðu með samræðu. 

Árið 1896 birtist grein í Eimreiðinni eftir Valtý Guðmundsson þar sem hann gerir gagnrýna hugsun að umtalsefni. Á einum stað víkur hann að smæð samfélagsins þar sem hver þekkir annan. Bendir hann á að slíkt geti ráðið miklu í dómum um einstaka menn og framkomu þeirra auk blindrar þjóðernishyggju sem sjái útlendar grýlur í hverju horni. Valtýr bendir á að slíkt „öfugstreymi í þjóðernistilfinningu er hinn mesti þröskuldur í vegi fyrir sannri gagnrýni, því ekkert er eins hættulegt fyrir hana og það, ef tilfinningin ber skynsemina ofurliði.“

Þótt þessi grein hafi verið skrifuð fyrir tæpum 120 árum á hún enn við í íslensku samfélagi. Með greininni vill Valtýr hvetja landa sína að hefja sig yfir valdabrölt og hagsmunapot og ræða brýnustu úrlausnarefni þjóðarinnar með sannleiksástina að vopni í anda hreinnar krítíkur. Það er full ástæða til að skoða upphafsorð greinarinnar þar sem Valtýr veltir fyrir sér hlutverki gagnrýninnar:

Eitt af því, sem einna tilfinnanlegastur skortur er á Íslandi, er það sem á útlendu máli kallast „krítík“. Það kveður jafnvel svo rammt að, að við eigum einu sinni ekki neitt orð yfir hugmyndina í málinu. Að „krítísera“ er eiginlega það, að láta sjer ekki nægja að skoða hlutina eins og þeir líta út á yfirborðinu, heldur leitast við að rýna í gegnum þá og gagnskoða, til þess að sjá hina innri eigin¬leika þeirra, bæði kosti og lesti. Það er með öðrum orðum að kafa í djúpið og sækja bæði gullið og sorann, greina það hvort frá öðru og breiða hvorttveggja út í dagsbirtunni, svo að allir, sem hafa ekki sjálfir tíma eða tækifæri til að vera að kafa, geti sjeð, hvað er gull og hvað er sori. Þetta virðist oss að mætti kalla á íslenzku gagnrýni og gagnrýninn þann mann, sem sýnt er um að gagnrýna hlutina.  

Sjálft orðið „gagnrýni“ hefur alltaf haft á sér neikvæðan blæ á Íslandi. Rýni sem gerir gagn, uppbyggilegar athugasemdir um það sem betur má fara. Ábendingar sem sá sem gagnrýndur er getur tekið til sín, lært af og gert betur næst. Ef gagnrýni er skoðuð á þennan hátt sést að hún á ekki bara rétt á sér, heldur er hún nauðsynleg. Hún er ekki bara nauðsynleg þegar sjónum er beint að þeim aðilum sem eru í forsvari fyrir ríkið og stofnanir þess eða listamenn heldur er hún nauðsynlegur liður í þroska mannsins á leið sinni til sjálfræðis sem felur í sér þekkingarleit og réttsýni, eða hugrekki til að nota eigin skynsemi eins og hjá Kant þegar hann hvatti samborgara sína í Köningsberg til að beita henni á valdatíma Friðriks II.

Stóra spurningin er hinsvegar sú hverju það sæti að gagnrýni skuli vera jafnt eldfimt viðfangsefni á Íslandi og raun ber vitni.

Til að gagnrýni verði nokkurn tímann hluti af lífi mannsins verða þeir að spyrja sig eftirfarandi spurningar. Vil ég hafa rétt fyrir mér eða vil ég stækka við þekkingarbrunn minn með rökræðum og opnum huga. Fyrir þá sem hafna seinni valkostinum munu leyndardómar gagnrýninnar ávallt verða þeim lokuð bók. Þekking verður aldrei fasti, heldur ferli þar sem þekkingin er undirorpin breytingum sem geta stafað af nýrri þekkingu eða upplýsingum á tilteknu viðfangsefni.

Rýmisfylling tómarúmsins

En við búum ekki í tómarúmi. Og hvað sem allri þekkingarleit og sannleiksást líður þá lifum við öll í samfélagi þar sem hagsmunir tiltekinna einstaklinga munu verða þeim sem leiðarljós um ýmiskonar málefni. Það þýðir að til að fá samhengi í hlutina þarf að greina flókin hagsmunatengsl fólks sem myndar þéttriðið net þess orðræðukerfis sem skeytir engu um gagnrýni og sannleika. Viðhald slíks orðræðukerfis getur aldrei orðið þegnum þjóðfélaga til nokkurs gagns líkt og kom í ljós með harkalegum viðbrögðum handhafa orðræðunnar þegar erlendar gagnrýnisraddir settu spurningamerki við útbólgið gengi hlutabréfa í bönkum.

En þegnar landsins hafa val. Viljum við búa í samfélagi hvers orðræðukerfi stýrist af hagsmunum og valdapoti eða viljum við iðka gagnrýna hugsun og skynsemi sem á ekki bara á hættu að vera borin ofurliði af tilfinningahita heldur jafnframt hagsmunagæslu. Hversu mörg áföll þurfa Íslendingar í raun að upplifa til þess að seinni möguleikinn verði fyrir valinu. 

 

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Byggjum borg tvö – Sel­foss eða Akur­eyri fyrst?

Ekkert er fegurra en hugmynd hvers tími er komin: Akureyrarborg eða? Tilgangur hugmyndarinnar um Akureyrarborg er að draga vald norður og styrkja umboð Akureyringa til að nota það. Önnur borg skapar vonandi valdajafnvægi í landinu sem eykur velferð landsbyggðarinnar. Það verður erfitt að ganga framhjá borg tvö. Forsendurnar liggja í því sem landshlutinn villhafa en

smelltu og lestu »

Geta gert sáttmála um samtalið

Samfélagið allt virðist loga í illdeilum og geta átökin borist inn á vinnustaðinn Það getur snúist í höndunum á fyrirtækjum að taka afstöðu í hitamálum Grundvallarreglur geta bætt samskiptin Greina má merki um vaxandi spennu í samfélaginu og virðast ótal deilumál hafa náð að skipta landsmönnum í andstæðar fylkingar. Nú síðast hafa átökin á milli

smelltu og lestu »
setur stjórnendur í mjög erfiða stöðu

Setur stjórnendur í mjög erfiða stöðu

Ef upp kemst um óviðeigandi hegðun eða brot starfsmanns gæti þurft aðstoð óháðra sérfræðinga Til að finna farsæla lausn þarf heiðarlegt samtal að geta átt sér stað Engin tvö tilvik eru eins Því miður líður varla sú vika að ekki berast fréttir af óviðeigandi hegðun og jafnvel kynferðisbrotum einstaklinga sem ýmist eru í áhrifastöðum í

smelltu og lestu »