Hið andlega og hið veraldlega skortir gagnkvæman skilning
útgefið

Ekki einu sinni, heldur tvisvar virðist kaþólska kirkjan brjóta gegn sóttvarnarreglum. Patrick Breen, staðgengill biskups, vísaði í stærð kirkjunnar og eigin skoðun að hún væri nógu stór til þess að óhætt væri að fimmtíu manns kæmu saman í stað tíu eins og samkomutakmarkanir gera ráð fyrir.

Kaþólska kirkjan á ekki mikið inni hjá Íslendingum eftir að erfið hneykslismál á heimsvísu bergmáluðu á Íslandi. Staðgengill biskups leit fljótt á litið út sem fulltrúi freka karlsins sem sagði einfaldlega „mér finnst þetta í lagi“ og eins og kaþólska kirkjan teldi sig hafna yfir lög og reglu.

Kaþólska kirkjan missti hins vegar af gullnu tækifæri til að skýra mun hins andlega og hins veraldlega en kaþólska kirkjan þjónar m.a. stórum hluta Pólverja sem eru búsettir á Íslandi og eru vanir því að kirkjur séu þeim alltaf opnar. Menningarlegur munur skapar í þessu tilfelli núning. Veraldlegar íslenskar sóttvarnarreglur lenda því upp á kant við andlega stefnu kaþólsku kirkjunnar sem helgs staðar sem er öllum kaþólskum opin og engum þeirra vísað frá.

Sé sú ákvörðun tekin að hunsa sóttvarnarreglur er best að skýra hreinskilnislega frá því hvaða forsendur liggja til grundvallar slíkri ákvörðun og vera tilbúin til að taka afleiðingunum. Fyrir óinnvígðum er jafnframt mikilvægt að skýra af hverju sú ákvörðun er talin sú rétta og vera tilbúin til að ræða hin andstæðu sjónarmið sem ef til vill gæti leitt til gagnkvæms skilnings og þar með skapað farveg fyrir lausn sem væri betur grundvölluð.

Augljósar eru hins vegar almennar áhyggjur af þeirri áhættu sem felst í því að sóttvarnarreglum sé hafnað með þessum hætti. Í kirkjum er til siðs að ganga til altaris og þiggja oblátu og vín sem hefur verið helgað og verða því þau sem ganga til altaris annað hvort að vera sett út af sakramentinu eða taka áhættu á smiti þegar oblátan er handmötuð maður á mann. Þetta er m.a. ástæða þess að Þjóðkirkjan hefur valið þá leið að fara í öllu eftir sóttvarnarreglum og tilmælum eftir ákvörðun biskups.

Niðurstaðan úr þessu öllu saman á við um bæði hið veraldlega og hið andlega. Hvorugur aðilinn hefur miðlað sínum sjónarmiðum nægjanlega vel til að skapa skilning hinu megin. Það er stóri vandinn. 

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Handaband