Cohn & Wolfe og Burson-Marsteller eru leiðandi í uppgjöri alþjóðlega almannatengslafyrirtækisins WPP. Hagnaður fyrirtækisins nam rúmum 1,1 milljarði dala, jafnvirði rúmra 157 milljarða íslenskra króna á síðasta ári. Þetta er 13,8% meiri hagnaður en árið 2013.
Undir samstæðu WPP eru fjöldi fyrirtækja víða um heim í almannatengslum, ráðgjöf og auglýsingum og hjá þessum fyrirtækjum starfa sérfræðingar í markaðssetningu og krísustjórnun svo fátt eitt sé nefnt. Starfsmenn eru 162 þúsund í 110 löndum.
Veruleg tekjuaukning hjá Cohn & Wolfe
Í uppgjöri WPP er tekið fram að vöxturinn hafi verið meiri hjá nokkrum fyrirtækjum innan WPP en öðrum. Auk Cohn & Wolfe og Burson-Marsteller eru það H+K Strategies og Ogilvy PR.
Tekjur samstæðunnar námu 11,5 milljörðum dala og er það 9,9% aukning á milli ára.
Tekjuaukningin Cohn & Wolfe nam til samanburðar 11,5% á milli ára. Haft er eftir Donnu Imperato, forstjóra Cohn & Wolfe að síðasta ár hafi verið það besta í sögu fyrirtækisins.
Styrkja vörumerkin
Cohn & Wolfe rekur skrifstofu í Kringlunni í Reykjavík. Fyrirtækið vinnur náið með systurfyrirtækjum innan WPP.
Martin Sorrell, forstjóri WPP, bendir á að þrátt fyrir allt hafi aðstæður á mörkuðum verið krefjandi. Það skýrist einkum af erfiðleikum á evrusvæðinu, efnahagsmálum í Bandaríkjunum og í Bretlandi, óeirðum í Miðausturlöndum og fleiri þáttum. Viðskiptavinir WPP hafi verið varir um sig en einbeitt sér að því að styrkja vörumerki sitt.