Fólk má segja hvað sem er við annað fólk. Móttakandi skilaboðanna verður að skilja þau. Ekki er hægt að stýra því hvernig móttakandi skilaboða túlkar skilaboðin.
Notkun orða skiptir máli. Á árum áður – og börn gera það enn í dag – var talað niður til fólks með orðum á borð við hommi og lessa. Þegar samkynhneigðir karlmenn og konur fóru sjálf að nota orðin um sig afvopnuðu þau hina sem notuðu þau í niðrandi merkingu.
Fjallað var um orðanotkunina í sjónvarpsþættinum Orðbragði á RÚV. Í þættinum var rætt við leikskáldið Tyrfing Tyrfingsson um notkun orða.
Kynvillingurinn
Tyrfingur notar kinnroðalaust orðið kynvillingur um sjálfan sig. Í orðinu kynvillingur fólst áður að eitthvað var öfugt, á röngunni eða beinlínis rangt. Tyrfingur segir að ástæða þess að hann noti orðið sé að það sé hans leið til að afvopna þá sem noti orðið í neikvæðri merkingu. Við afvopnunina, notkun hans á orðinu kynvillingur, hafi hann valdið yfir merkingu þess. Á sama tíma hafi hann gert þeim sem hafi notað orðið erfiðara fyrir að hata sig. Mikilvægt sé að vera á undan hatrinu og því noti hann það til að lýsa sjálfum sér.
„Ég held að það sé hættulegt að skamma hvert annað fyrir að nota ákveðin orð eða hugsa ákveðna hluti. Þá erum við komin á svolítið erfiðan stað. Og þá er einmitt orðið freistandi fyrir óþekktaranga eins og mig einmitt að nota þau,“ segir Tyrfingur sem var viðmælandi um orðanotkun í Orðbragði.
Tyrfingur segir: „Þú getur sagt hvað sem er við mig. Þú mátt það alltaf. En þú getur ekki stýrt því hvernig ég tek því. En hins vegar ef ég er farinn að nota einhver orð svona út í loftið þá er ég svolítið farinn að rugla í þér. Það er að segja, ég er farinn að gera fólki erfiðara fyrir að hata mig.“
Samkvæmt aðferðafræði Cohn & Wolfe fjallar móðgun ekki um sendanda. Hann getur ekki ráðið viðbrögðum fólks. Fólk lætur móðgast. Sendandi skilaboða á ekki að velta viðbrögðum móttakanda þeirra fyrir sér nema hann sé ekki tilbúinn til frekari samskipta við þá sem láta móðgast.