Mikið er rifist og þrasað um loforð þessa dagana. Við ætlum ekki að hlutast til um það hver lofaði hverju og hvað var svikið. Við ætlum hins vegar að skrifa greinarkorn um loforð, hvað það raunverulega er.
Við ætlum að skoða hvaða gildi loforð hefur og þar af leiðandi hvaða afleiðingar það hefur að standa ekki við loforð. Hver og einn getur svo hugsað út frá eigin forsendum hvenær einhverju hefur verið lofað og hvenær eitthvað hefur verið svikið.
Það eru nokkur grundvallaratriði sem þarf að hafa í huga þegar loforð eru metin. Hver sem er getur auðvitað lofað hverju sem er, oft án þess að það hafi einhverjar sérstakar afleiðingar og þar liggur hundurinn grafinn – ætlast er til þess að sumir standi við loforð sín en aðrir ekki.
Fimm grunnþættir loforðs
Skoðum málið aðeins nánar. Það þarf að uppfylla í það minnsta fimm sjálfstæð atriði til að geta lofað einhverju. Það þarf boðanda loforðsins, það er að segja það getur enginn lofað einhverju fyrir annars hönd. Þá þarf einhvern til að taka við loforðinu, einhvern sem loforðið er beint til. Það þarf ennfremur að vera gagnkvæmur skilningur á því hvernig loforðið verður uppfyllt. Loforðið verður einnig að fela í sér eitthvað sem á að gerast í framtíðinni. Fimmti og síðasti liðurinn er svo hvenær loforðið er komið á tíma.
En eins og áður kom fram þá þarf einnig að skoða af hverju sumum er ætlað að standa við loforð en öðrum ekki. Þar koma til sögunnar nokkrir þættir sem segja til um hvort loforðið er áreiðanlegt eða ekki.
Fyrst skal skoða hvort sá sem loforðið gefur er í stöðu til efna loforðið annarsvegar og hinsvegar hvort viðkomandi sé hæfur til þess að lofa, til dæmis ekki krónískur lygari. Þá þurfa bæði sá sem gefur loforð og sá sem er móttakandi þess að gera sér grein fyrir því hvort loforðsgefandinn geri sér grein fyrir tímarammanum til að efna loforðið. Þá þarf sá sem lofar að hafa sýnt fram á að honum sé alvara, með yfirlýsingu, með því að taka frá tíma eða einhver bjargráð til að uppfylla loforðið. Ennfremur þarf að vera ljóst að loforðið sé gefið af frjálsum hug og af einlægni. Loks þarf sá sem gefur loforð að gera sér fulla grein fyrir, og taka ábyrgð á, þeim afleiðingum sem það hefur að standa ekki við loforðið.
Með þessum leiðbeiningum sem við höfum hér að ofan er hægt að taka hvers kyns málefni til skoðunar og velta því fyrir sér hvort ástæða hafi verið til að taka mark á gefnu loforði og ef svo var, hvað raunverulega fór úrskeiðis.
Sáttmálinn
Þegar loforð er gefið er stundum talað um að sáttmáli hafi komist á. Loforð eru oftast ekki gefin út í loftið. Þau eru gefin vegna þess að krafa er höfð uppi, og sá sem gefur loforðið sér hagsmunum sínum best borgið í því að gefa loforðið – og stundum efna það.
Hver einasti einstaklingur skapar sér ákveðið orðspor sem byggist á þeim eiginleikum sem einstaklingurinn býr yfir. Í stuttu máli þá verður skynheild allra þessara eiginleika það sem móttakendur sjá og skapar orðsporið. Orðsporið er grundvöllur sáttmálans. Ef sáttmálinn heldur ekki þá mun orðspor þess sem lofaði einfaldlega breytast til hins verra. Ef það gerist ekki þá er það skýr vísbending um að trúverðugleiki þess sem lofaði einhverju hafi einfaldlega ekki verið mikill og því ekki mark takandi á loforðinu.