Sérfræðingar í almannatengslum eru boðskiptaarkitektar, sem hafa m.a. það hlutverk að móta ímynd viðskiptavina, vörumerkja eða skipulagsheilda sem byggist á forsendum hagræðingar í stefnulegu kynningarferli einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og samtaka og kerfisbundnum aðferðafræðilegum vinnubrögðum til verndar og styrktar orðspori þeirra, vörum og/eða þjónustu.
Þegar litið er til hlutverks þessa sérfræðinga má taka til umfjöllunar að stígi þeir inn á opinberan vettvang til að tjá persónulegar skoðanir sínar, eru þeir á hálum ís, þar sem þeir hætta bæði trúverðugleika sínum sem sérfræðingar og orðspori viðskiptavina sem þeir starfa fyrir.
Eiga almannatenglar að tjá skoðanir sínar opinberlega?
Erlendis er hörð umræða um hvort almannatenglar eigi að tjá skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Hér á Íslandi er þessu öðruvísi farið því margir íslenskir almannatenglar hika ekki við að draga sig í flokka og njóta sviðsljóssins með að tjá sínar skoðanir á ýmist mönnum eða málefnum líðandi stundar án tillits til þess hvort það sé á forsendum faglegs álits.
Erlendum sérfræðingum þykir þetta merkilegt, ekki síst vegna smæðar landsins og innbyrðis tengsla.
Þeir sem komast að því að erlendis hiki almannatenglar við að tjá skoðanir sínar verða stundum hissa. Þeim þykir sérkennilegt að sérfræðingar í að kenna öðrum að lýsa skoðunum sínum skuli forðast að tjá sínar eigin skoðanir.
En af hverju ætli það sé?
Hverjar geta verið afleiðingar þess að almannatengill tjái skoðanir sínar opinberlega?
Einn helsti ókosturinn við að almannatenglar tjái eigin skoðanir opinberlega er aukin hætta á hagsmunaárekstrum þar sem móttakendur almennt gera ekki greinarmun á faglegum og persónulegum skoðunum. Almannatenglar vilja síður fæla frá tilvonandi viðskiptavini með því að lýsa yfir skoðunum sínum og síst vilja þeir móðga eða fæla frá núverandi viðskiptavini með því að tala um hluti sem geta stuðað þá eða eru jafnvel andstæðir hagsmunum eða sjónarmiðum þeirra.
Þegar almannatenglar tjá eigin skoðanir á opinberum vettvangi verða mörkin óljós á milli persónulegra og faglegra starfshátta þeirra. Þótt þeir eigi rétt á tjáningarfrelsi geta opinberar yfirlýsingar þeirra orðið þess valdandi að þær kasti neikvæðu ljósi á viðskiptavinina sem þeir starfa fyrir. Þessi skortur á aðgreiningu getur skapað misskilning meðal hagaðila viðskiptavina og almennings og grafið undan trúverðugleika sérfræðiráðgjafarinnar.
Sýnileiki almannatengla getur skyggt á vinnu viðskiptavina sem þeir starfa fyrir. Þó að sérfræðingar í almannatengslum gegni mikilvægu hlutverki á bak við tjöldin við að móta skynjun almennings til samræmis við raunstöðu skipulagsheildar, getur sýnileiki þeirra óvart dregið athygli frá helstu hagaðilum. Þessi dýnamík getur skapað spennu í samskiptum við viðskiptavini og grafið undan samvinnueðli árangursríkrar sérfræðiráðgjafar almannatengla.
Almannatenglar sem láta í ljós skoðanir sínar á almannafæri hætta á að vera álitnir hlutdrægir eða óáreiðanlegir af blaðamönnum, hagaðilum og almenningi. Hlutlægni og óhlutdrægni eru hornsteinn í skilvirkum almannatengslum og hvers kyns hlutdrægni getur rýrt traust og trúverðugleika með tímanum. Tap á trausti getur haft víðtækar afleiðingar, haft áhrif á árangur framtíðarverkefna í almannatengslum og skaðað fagleg samskipti og atvinnugrein almannatengla.
Það eiga margir erfitt með að greina á milli persónulegra skoðana og faglegra skoðana. Faglegar skoðanir hafa ekkert með persónulegar skoðanir almannatengilsins að gera því almannatengill, sem einhver akkur er í, getur séð marga fleti máls og verður að geta talað fyrir þeim öllum. Þetta eiga margir erfitt með að skilja og segja jafnvel að með þessu séu almannatenglar að selja sál sína. Það er fjarri lagi – almannatenglar eru einfaldlega með sérþekkingu á mögulegri túlkun mismunandi hagaðila á því sem sagt er.
Geta almannatenglar lært eitthvað af nýlegu raundæmi í íslensku samfélagi?
Eru íslenskir almannatenglar of fyrirferðamiklir?
Eins og áður sagði á þessi umræða ekki við um Ísland þar sem fáir almannatenglar hika við að tjá skoðanir sínar. Nýlegt raundæmi er sönnun þess efnis þegar umfjöllun um íslenskan almannatengil spratt upp á samfélagsmiðlum þar sem hann hafði með áberandi hætti lýst persónulegum skoðunum í fjölmiðlum sem og á samfélagsmiðlum um samfélagsmál líðandi stundar er varðaði flóttafólk og stöðu þess á Íslandi. Þótt fyrirætlanir almannatengilsins kunni að hafa verið einlægar, þróuðust alvarlegar umræður sem hafa áhrif fyrir viðskiptavin umrædds almannatengils. Viðskiptavinurinn, sem var forsetaframbjóðandi lenti í því að vera bendlaður við skoðanir almannatengilsins þar sem fjölda einstaklinga skrifaði að þeir myndu ekki ljá forsetaframbjóðendanum sitt atkvæði í komandi forsetakosningum.
Atvikið er áþreifanleg áminning um þá áhættu sem fylgir því að fagfólk í almannatengslum tjái persónulegar skoðanir á opinberum vettvangi. Þótt einstaklingar eigi rétt á skoðunum sínum og sannfæringu, verða þeir að vera meðvitaðir um hugsanleg áhrif á viðskiptavini sem þeir starfa fyrir. Í tengdum heimi nútímans, þar sem hvert orð og athöfn er skoðuð undir smásjá, geta ein mistök eða mismæli haft djúpstæðar afleiðingar.
Almannatenglar eiga að vera bakland viðskiptavinar
Raundæmið þjónar sem víti til varnaðar og undirstrikar hið viðkvæma jafnvægi milli einstaklingsfrelsis og skyldu um fagmennsku í sérfræðiráðgjöf almannatengla. Hér væri kannski ráð að taka umræðuna á hinn veginn og íhuga hvort rétt sé, eins og sumir kjósa að gera, að vera bakland viðskiptavina sinna (e. behind the client) án þess að vera í sviðsljósinu sjálfir. Það má vel velta því fyrir sér hvort íslenski almannatengillinn sé of fyrirferðarmikill á sviðinu og hvort skoðanir hans geti smitast yfir á viðskiptavini eða að þær skoðanir sem eru látnar í ljós geti haft áhrif á viðskiptavini.