Til skýringa á tapi Katrínar Jakobsdóttur í forsetakosningunum nota menn stefnulega hugtakið „taktík” sem rök. Í ólíkum tilgangi er fullyrðingum kastað fram um að kjósendur hafi kosið sigurvegara kosninganna, Höllu Tómasdóttur, „taktískt” gegn Katrínu Jakobsdóttur.
Afvegaleiðing er þekkt fortölutækni, taktík þeirra sem valið hafa að taka ekki ábyrgð á eigin verkum.
Hér er óvarlega farið með þetta merkilega stefnulega hugtak „taktík,” sem breyst getur við að horfa á það eða eftir því hvernig við vinnum með hlutina af ásetningi og meininguna að baki. Kosningar eru í sjálfu sér stefnuleg taktík, hvort tveggja frá sjónarhóli þess sem heldur þær og kjósandans.
Hvað eru menn að vinna með og fyrir hverja? Hvað meina fjölmiðlamenn, álitsgjafar, fræðimenn, almannatenglar, stuðningsmenn og áhugasamir þegar þeir halda því fram að næsti forseti Íslands hafi ekki sigrað á eigin verðleikum? Yrðingin virkar eins og áróður og undirróður; afsökun fyrir ósigri.
Hugtakið taktík á sér nokkur samheiti sem við notum til að skýra hugsun okkar í trúverðugri hugmynd. Val í hvaða formi sem er, val á forseta eða val á vöru og þjónustu er aðferð sem hver og einn kýs að nýta í viðkomandi aðgerð, þar sem eiginleikar eru metnir.
Taktík er þá leið, aðferð, tækni og er að finna á milli hátternis og framkvæmda í stefnulegu stigveldi. Aðferðafræði byggist þá á einhverri ákveðinni tegund aðgerða sem grundvallast á forsendum og tilgangi.
Hugmyndin að aðgerðinni „kjósa taktískt“ er út frá stefnulegu sjónarhorni, markmiðabundin aðgerð. Í stefnugerðinni koma markmið á undan leiðarvali, taktíkinni. Þannig hefur kjósandinn einhver markmið að stefna að. Hann kýs. Kosningin er taktík, leiðin til að uppfylla viðkomandi markmið.
Aðgerðin “kjósa taktískt” er slæm hugmynd til skýringar á “strategískri atkvæðagreiðslu” (strategic voting). Stefna leiðir skipulag!
Guðjón Heiðar Pálsson
Greinin birtist fyrst á Vísir 3. júní 2024