Gamaldags PR og nútíma almannatengsl
útgefið

Fáir vita kannski af því – eða loka augunum fyrir því – en almannatengsl hafa þróast mikið. Þau hafa gengið í endurnýjun lífdaga. Gömlu aðferðirnar heyra sögunni til. Nútíma almannatengsl eru komin til að vera.

Endrum og eins rifja þeir sem eldri eru en tvævetur upp hvernig lífið var áður fyrr. Þeir muna jafnvel eftir fyrsta tölvupóstinum sem þeir fengu, lífinu fyrir daga almennings á Netinu, sjónvarpslausum fimmtudögum – og sjónvarpslausum júlí! Þeir muna líka eftir tóbaksnotkun í viðtalsþáttum í sjónvarpi og blaðamannafundum sem reynt var að halda síðla dags í vikulokin svo hægt væri að bjóða upp á áfengi.

Ýmislegt fleira má rifja upp sem tilheyrir fortíðinni en þekkist ekki í dag. Þar á meðal eru skjalaskáparnir, gríðarlegir hlunkar með skjölum eftir ákveðnu skipulagi; fréttatilkynningarnar sem skrifaðar voru á ritvélar og sendar út með pósti eða hraðsendli – þeir tæknivæddustu áttu auðvitað fax; upptökur á segulbandsspólum; líf án farsíma þegar skilja þurfti eftir skilaboð…. Það er hætt við að upptalningin verði endalaus.

Þingmaður ælir í flugvél

Greint var frá því nýverið að þingmaðurinn Ásmundur Einar Daðason hefði kastað upp í flugvél á leið til Washington í Bandaríkjunum. Um borð voru aðrir þingmenn sem sæti eiga í utanríkismálanefnd Alþingi og var hópurinn á leið til fundar með fulltrúum utanríkismálanefndar fulltrúadeildar bandaríska þingsins og starfsmönnum fleiri stofnunum þar í landi.

Eins og fjölmiðlar lýstu málinu kastaði Ásmundur upp yfir nokkur sæti við salernisaðstöðu vélarinnar. Fjölmörg vitni voru að uppákomuni, bæði aðrir þingmenn, farþegar og áhöfn.

Þótt heimildamenn fjölmiðla hafi fullyrt að Ásmundur Einar hafi drukkið töluvert magn áfengis áður en hann steig um borð í vélina og um borð  í flugvélinni – hugsanlega drukkið ofan í svefnlyf – þá þrætti Ásmundur fyrir allt saman og sýndi ekki minnstu iðrun . Þvert á móti hafi hann þjást af magakveisu í heila viku, bæði fyrir ferðina, í ferðinni og eftir hana. Hann ætli að fara til læknis.

Ásmundur hefur ekki tjáð sig frekar um málið og lét ekki ná í sig. 

Þingmaður í öngstræti

Gamlar aðferðir almannatengilsins mæla með því að Ásmundur myndi ekkert segja, hvað þá um atvikið í flugvélinni. Helst ætti hann ekki að láta ná í sig.

Rótgrónu gömlu aðferðir almannatengilsins skiluðu engum árangri. Þær gerðu illa verra. Daginn eftir var kominn upp krísa hjá Ásmundi, þingmaðurinn var í öngstræti. 

Það tók virka notendur á Twitter ekki langan tíma að taka Ásmund upp á sína arma. Þeir bjuggu til myllumerki #ásiaðfásér og fjölluðu um hann á ýmsan hátt ásamt því að birta myndir af honum í líki flugdólgs. Hann varð líka fórnarlamb pistlahöfunda.

Þá var fundað um athæfi Ásmundar hjá Wow air  og hugsanlegt brot á trúnaðarskyldu þegar flugfreyja tjáði sig um Ásmund í samtali við fjölmiðla.

„Ég vissi ekki betur“

Forvitnilegt er að bera viðbrögð Ásmundar við það þegar Einar K. Guðfinnsson var uppvís að því að veiða lunda í Grímsey í Steingrímsfirði án þess að hafa veiðikort. Þetta var sumarið 2006 og Einar sjávarútvegsráðherra. Hann hafði stundað veiðarnar árlega í 15 ár.

Einar gekkst við athæfinu: „Ég vissi ekki betur en svo að þessar lundaveiðar krefðust þess ekki að vera með veiðikort. […].Ég stóð að þessum veiðum í góðri trú vegna fávísi minnar um þessi mál. Ég hef aldrei stundað þessar veiðar öðruvísi en svo að mönnum hafi verið ljóst að ég gerði það. Ég greindi meðal annars frá þessu í blaðaviðtali því ég vissi ekki annað en ég hefði stundað löglegt athæfi,”,” sagði Einar í samtali við Fréttablaðið.

Hvað gerir nútíma almannatengill?

Almannatengill sem ástundar nútíma almannatengsl myndi boða Ásmund Einar Daðason á sinn fund og veita honum önnur ráð en hann hefur fengið til þess. Hann fengi meðal annars þau ráð að fara EKKI með veggjum. Þvert á móti ætti hann að svara fyrirspurnum, tjá sig. Skýra frá ástæðum þess að hann kastaði upp í flugvélinni. Það voru jú vitni að atvikinu og því sem fólk telur hafa verið drykkju um borð í flugvélinni.

Almannatenglar eru sérfræðingar í boðmiðlun, samskiptum. Fyrirtæki leita til almannatengla til að auka skýrleika samskipta við almenning, hluthafa, fjárfesta, fjölmiðla og aðra sem máli skipta fyrir fyrirtækið.

Ólíkt gömlu almannatengslunum sem fólu í sér að bregðast við orðnum atburðum þá snúast almannatengsl um forvarnir.

Lykillinn að aðferðafræði Cohn & Wolfe er einfaldur. Við bendum á það sem vel er gert svo fólk læri að meta gæði. Hvað þýðir það? Ef fyrirtæki sér eigin eiginleika öðruvísi en almenningur er það verkefni almannatengilsins að hjálpa fyrirtækinu að sýna sitt rétta andlit. Almannatengillinn hefur það hlutverk að breyta viðhorfum í jákvæða átt til sáttar.

Viltu kynna þér almannatengsl nútímans hjá Cohn & Wolfe?  Fáðu þér þá kaffibolla, kveiktu á tölvunni og hlustaðu á þáttinn Hvað ber að gera. Brjánn Jónasson, sérfræðingur Cohn & Wolfe, fjallar þar um almannatengsl í nútímanum.

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Handaband