Nútíma almannatengsl í forneskjulegum heimi
útgefið

Vissir þú að nýjasta þáttaröðin af Game of Thrones er rétt handan við hornið? Ef ekki hefur þú sennilega lítið fylgst með vefmiðlum og samfélagsmiðlum þar sem fréttir um nýjustu þættina hafa verið mjög áberandi síðustu vikurnar. Aðferðin sem beitt er við að kynna þættina er bæði áhugaverð og öflug og rímar vel við þá aðferðafræði sem við hjá Cohn & Wolfe fylgjum.

Kynningarherferðin fyrir nýjustu Game of Thrones þáttaröðina er gott dæmi um það hvernig nútíma almannatengsl virka. Áður en við kryfjum það nánar skulum við skoða hvernig gamaldags PR-maður hefði ráðlagt HBO-sjónvarpsstöðinni að kynna sig.

Gamli almannatengillinn hefði sent út eina fréttatilkynningu á alla áhugasama fjölmiðla með upplýsingum um þættina og númeri hjá talsmanni þeirra neðst. Hefði það virkað vel til að kynna þættina? Þeir hefðu eflaust fengið einhverja umfjöllun. En kynningin hefði varað í besta falli í einn dag og verið svipuð á öllum miðlum. Gamaldags PR-maðurinn nær ekki þeirri dekkun sem HBO vill.

Einn miðill, ein frétt

PR-fólk HBO fór aðra leið. Í stað þess að veita öllum miðlum sömu upplýsingarnar, sömu fréttina, var farin sú leið að segja ótal margar fréttir. Eina fyrir hvern miðil. Jafnvel margar fyrir suma, með nokkurra daga millibili. Mismunandi fólk fer í viðtöl og segir mismunandi sögur. Sami leikarinn getur farið í viðtöl á þremur sjónvarpsstöðvum og sagt mismunandi sögur á öllum. Þetta gerist ekki sjálfkrafa. Þetta er afrakstur vel unninnar PR-strategíu.

Þessi aðferðafræði hefur margs konar áhrif. Í fyrsta lagi er líklegt að sá miðill sem fær einn að sitja að ákveðinni frétt geri meira úr henni en ef stjórnendur þar vita að allir aðrir fjölmiðlar fái sömu fréttina. Ef fréttin er áhugaverð munu einhverjir aðrir miðlar segja hana líka og vitna í þá sem sögðu hana upphaflega. Verða hinir ekki fúlir að fá ekki þessa skemmtilegu frétt? Alls ekki, þeir fá aðra frétt á morgun eða hinn. Frétt sem enginn annar en þeir fá, frétt sem aðrir verða að vitna í þá til að segja.

Í öðru lagi hefur þessi aðferðafræði þau áhrif að umfjöllunin er stanslaus. Fyrir þá sem fylgjast með mörgum fréttaveitum, hvort sem er beint eða í gegnum samfélagsmiðlana, er alltaf eitthvað nýtt að frétta. Það er ný frétt á hverjum degi, margar á dag fyrir þá sem hafa fyrir því að leita. Hver frétt þarf ekki að vera merkileg. En fyrir þá sem eru spenntir fyrir nýju þáttunum er alla daga eitthvað í fréttum sem minnir þá á að nú styttist í að þeir komi í sýningar.

Í þriðja lagi virkar það sem fær svona mikla athygli í fjölmiðlum jafnvel enn meira spennandi á þá sem fylgjast með. Ef þetta væri ekki spennandi, af hverju ættu fjölmiðlar að vera að segja endalausar fréttir af þessu?

Segðu fólki sögur

En hvernig fara PR-menn HBO að þessu? Til að byrja með eru þeir með gott efni í höndunum. Það hjálpar alltaf. Það er mikill áhugi á þessum þáttum en með þessari PR-herferð tekst þeim að auka hann verulega.

Lykillinn að því sem þeir gera er samt lygilega einfaldur. Fólk vill heyra sögur. Þeir segja fólki sögur. Hver frétt þarf ekki að vera merkileg, eða höfða til allra. Ef ein frétt fær mikla athygli er allt í lagi þó aðrar fái minni. Sögurnar höfða til mismunandi fólks á mismunandi hátt. Þannig getur frétt sem verður til út frá viðtali sem einhver af leikurunum fer í verið um eitt í Bandaríkjunum, um eitthvað allt annað í heimalandi þess leikara, og um alls ólíkan bút úr viðtalinu í þriðja landinu.

Ein fjöður verður að sjö kjúklingum

Dæmi um þetta síðasta mátti sjá í vikunni þegar leikarinn Peter Dinklage fór í viðtal í þættinum Daily Show hjá Jon Stewart. Ótal fréttaveitur unnu fréttir upp úr þessu viðtali. Á Íslandi var fréttin sem Nútíminn, Vísir, MBL og fleiri sögðu sú að íslenski kraftajötuninn Hafþór Júlíus Björnsson, sem fer með hlutverk í þáttunum, hafi borðað sjö heila kjúklinga í einni máltíð.

Fréttin sjálf er ekki merkileg. Ef hún væri það eina sem hefði komið í fréttum á Íslandi um þættina þá væri hún jafnvel hallærisleg. En þar sem hún er bara lítill hlekkur í langri fréttakeðju um nýju þættina verður hún til þess að halda áhuga þeirra sem bíða eftir nýju þáttunum. Um leið og hún seður hungrið í nýjar fréttir verður hún líka til þess að það mun aukast aftur fljótlega þar sem væntingar um meira efni hafa aukist. En þá verður eflaust komin ný frétt um eitthvað allt annað tengt þáttunum.

Við segjum sögur

PR-herferð HBO er gott dæmi um beitingu nútíma almannatengsla. Hún notast við sömu aðferðafræði og við hjá Cohn & Wolfe vinnum eftir. Við viljum ekki senda út þurrar fréttatilkynningar. Það er gamla aðferðafræðin. Hún er leiðinleg og úr sér gengin. Við viljum gera betur. Við viljum segja sögur.

Facebook
Twitter
LinkedIn

Nýjast á Úlfaslóð

Handaband