Nú skulum við athuga hvað það í raun merkir að gefa loforð, eða lofa einhverju eins og oftast er sagt. Eða svo við tökum skrefið lengra: er hægt að gefa loforð yfirleitt?
Vegna þingsályktunartillögu þess efnis að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka hefur mikið verið fjallað um loforð, efndir þeirra eða skort þar á í samfélaginu síðustu daga. Nú skulum við athuga hvað það í raun merkir að gefa loforð, eða lofa einhverju eins og oftast er sagt. Eða svo við tökum skrefið lengra: er hægt að gefa loforð yfirleitt?
Þegar loforð er skoðað er nauðsyn að hafa varann á og íhuga líftíma þess sérstaklega. Mannleg samskipti eru merkilegt fyrirbæri og gegna aðalhlutverki í hagsmunagæslu okkar. Lykilorðið er „fyrirheit“ sem grundvallar samskiptin í tímaröð þar sem meiningin um fyrirheit er sjálfgefin og gengið að loforðinu sem vísu.
Með því er vonin í fyrirrúmi og við gerum fyrirfram ráð fyrir því að sátt sé á milli manna, áður en samskipti hefjast; að siðir, venjur og þau gildi sem viðtekin eru í samfélaginu séu virt. Við gerum ráð fyrir því að hagsmunum okkar sé vel tekið af verðandi viðmælanda okkar og að ofbeldi sé ekki beitt. Í rauntíma, þegar samtal á sér stað, berum við upp erindi okkar og gerum ráð fyrir því að bæði erindinu og okkur sjálfum sé vel tekið og við fáum úrlausn okkar mála.
Íslenskan er oft væn til skilnings en orðið „samskipti“ er sett saman úr tveimur meiningum „sam“ og „skiptum“ sem merkir að gert er ráð fyrir að eitthvað sameiginlegt sé til staðar og einhver skipti séu vænleg og lofi góðu. Að skiptast á lofsamlegum orðum er lágmarkið í samskiptunum, nema markmiðið sé að þegja saman.
Eftir að samtal hefur átt sér stað erum við ennþá í sama fasa hvað varðar hagsmuni okkar, hvort sem markmiðum hefur verið náð eða ekki í samtalinu. Sama hvort svörunin var neikvæð eða jákvæð, þá fjalla samskiptin alltaf um áðurnefnd fyrirfram gefin loforð. Endanlegar niðurstöður samtalsins verða alltaf loforð um að gera eitthvað eða gera ekki eitthvað.
Loforð er fyrirheit um framtíð
Merkilegt er í raun að loforð sé yfirhöfuð ásættanlegt samkomulag milli manna, hvort sem það er fyrirfram ákveðið eða í samtali, þar sem hvorki gefandinn né þiggjandinn getur lofað að gefa eða þiggja loforð af augljósum ástæðum. Loforð er fyrirheit um framtíð, ágiskun manna um framtíðina sem ómögulegt er að geta sagt til um með nokkurri vissu.
Samskipti eru á ábyrgð þátttakanda í samtali með öllum sínum fyrirheitum og loforðum, (hvoru megin borðsins setið er). Svo sterkt má taka til orða að tala má um heimsku að krefjast loforðs, gefa loforð, þiggja loforð eða að standa í þeirri meiningu að hægt sé að standa við loforð og þannig hafa stjórn á framtíðinni. Þar sem ekki er hægt að gefa loforð er sömuleiðis ekki hægt að svíkja þau.
Við vitum að framtíð er væntingar, eins og fortíð er minningar, loforð eru í besta falli stefnulegar áætlanir, von um að eitthvað fari á tiltekinn veg.
Það að lofa er að efna til sáttmála
Með loforðinu er stefnt að tilteknu markmiði í einhverri áætlun. Það hvort tekst að efna það markmið eða ekki skapar svo orðspor. Slíkt orðspor skapast hins vegar ekki eingöngu fyrir þann sem lofar, heldur einnig hinn aðilann, viðtakanda loforðsins.
Loforðið er sáttmáli, samningur tveggja einstaklinga um áætlun sem þeir koma sér saman um. Verði forsendubrestur fellur sáttmálinn úr gildi. Krísa myndast svo þegar annar aðilinn óskar eftir að halda sáttmálann eftir að forsendubrestur hefur orðið. Því er mikilvægt að athuga hvort um forsendubrest sé að ræða áður en krísu er lýst yfir.
Næst þegar þú gefur loforð, eða einhver lofar þér einhverju, er ágætt að hafa í huga að það að gefa, efna eða þiggja loforð er ómögulegt.