11 hugleiðingar þegar kaupa skal almannatengslaráðgjöf

Í hnotskurn snúast velheppnuð almannatengsl um að fanga athygli rétta fólksins á réttum tíma og að rétt sé staðið að öllu. Almannatengsl fjalla að jöfnu um samskipti og hegðun þeirra sem að þeim koma. En til þess þarf fagfólk í almannatengslum. Stóra spurningin er, hvernig velur maður sér almannatengslaráðgjöf? Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:

Honor smartphone beside mug and paper with pen

1. Kaupir þú almannatengslaráðgjöf af sömu stofu og keppinautur þinn?

Það er ekki vanalegt að almannatengslafyrirtæki, frekar en t.d. auglýsingastofa, þjóni tveimur viðskiptavinum í harðri samkeppni. Í einhverjum tilfellum kann þetta að vera í lagi, ef báðir viðskiptavinir eru upplýstir og samþykkir. Það borgar sig að spyrja hvort ráðgjafi þinn vinni líka fyrir annan banka, ef þú ert að vinna hjá banka – ef svarið er já, og þú vissir ekki af því, þá er siðferðið ekki á háu plani.

2. Er siðferðið, burðarþol almannatengslanna, til staðar?

Það er ekki skylda almannatengla, líkt og lögmanna, að veita viðskiptavini bestu mögulegu vörn. Hlutverk almannatengla afmarkast af því loforði að miðla upplýsingum fölskvalaust til fjölmiðla og almennings. Þetta þýðir að ef gagnrýni á skjólstæðing almannatengils er sannleikanum samkvæmt þá ber honum að mæla fyrir um breytta framkvæmd og hreinskilið uppgjör vandamálsins.

3. Fjölmiðlatengsl byggjast ekki á vinum

Fagleg almannatengsl byggjast ekki á vinum í hópi blaðamanna. Í dag er áhættan of mikil að reiða sig á vinatengsl eða greiða. Það er einnig ófaglegt og jafnvel siðlaust. Óvíst er að málefnið fái að njóta sín vegna vinatengslanna. Mögulega er málefnið ekki undirbúið nægjanlega vel og greiðinn látinn duga. Blaðamenn fara og koma, verða veikir og fara í frí. Treystu frekar á gott efnislegt innihald skilaboðanna og fagleg tengsl.

4. Sérþekking verður að vera til staðar

Almannatengslastofan verður að búa yfir nægjanlegri sérfræðiþekkingu í bland við fjölbreytni svo þú getir líka nýtt þér hana til að skala þína starfssemi upp og niður eins og gagnast þinni starfsemi. Hún verður að hafa faglegan skilning á þinni atvinnugrein og geta nýtt samvirkni á milli ráðgjafa sinna. Almannatenglarnir þurfa að vera nægjanlega sterkir faglega til að geta veitt sjálfsstæða ráðgjöf í stað þess að segja þér það sem þú vilt heyra. Þeir verða að hafa hlotið þjálfun í að veita ráðgjöf.

Leiðarval í almannatengslum á að taka mið af sérfræðiþekkingu almannatengslafyrirtækisins. Ræður það t.d. yfir sérþekkingu á fortölustefnunni, skilaboðagerð, samhæfingu skilaboða og þeim styrk sem hún gefur, eða formgerð? Byggir það á faglegum fjölmiðlatengslum og djúpu tengslaneti á sínum sérsviðum? Nýttu styrkleikana þar sem þeir gefast. Spurðu og fáðu svör.

5. Notar almannatengslafyrirtækið gögn og mælir árangur?

Getur almannatengslastofan stuðst við gögn til að byggja ráðgjöf sína á, og mælt árangur? Það á alltaf að gera kröfu um hægt sé að mæla árangur af almannatengslum, ekki síst svo hægt sé að læra og bæta frammistöðuna. Til þess að það sé hægt þá þarf almannatengslastofan að hafa djúpstæða þekkingu á þeim skilgreiningum sem unnið er með.

6. Fóðraðu dýrið!

Afköst almannatengslastofu eru algjörlega háð því að hún séu fóðruð af gögnum og upplýsingum. Hleyptu almannatengslastofunni alveg inn í kjarna fyrirtækisins og hittu ráðgjafana oft. Fagleg stofa kann að lesa úr gögnunum og upplýsingunum og búa til þekkinguna sem áætlað er að koma á framfæri. Allt sparar þetta fé, og dregur úr líkum á klúðri svo lengi sem ráðgjafarnir kunna sitt fag. Ekki fresta fundum með almannatengslastofunni – settu þá í forgang, eins og þú gerir með tannlækninn.sl.

7. Hugleiddu tilgang aðgerða

Fjalla fyrirhugaðar aðgerðir fyrirtækisins um að auka sölu, breyta viðhorfi eða nýta tækifæri? Umfjöllun um fyrirtækið og forstjórann er gagnslaus ef hún skilar ekki t.d. því markmiði að auka sölu eða verja hagsmuni fyrirtækisins. Það er algengt á Íslandi að fréttatilkynningar séu sendar út án skilgreinds tilgangs. Það er hvorki gott fyrir ráðgjafann, fyrirtækið né fjölmiðlana. Sérhæfð almannatengslafyrirtæki gera lítið af því að senda út fréttatilkynningar því aðrar leiðir eru betri.

8. Almannatengill á ekki að vera meðvirkur og pukrast

Faglegir almannatenglar leyna ekki þeim hagsmunum sem þeir tala fyrir heldur eru reiðubúnir til að ræða þá opinskátt. Án skilnings eru engar líkur á vægð. Enginn almannatengill ætti að ráðleggja hulduaðgerðir sem geta haft áhrif á viðhorf ákveðinna hópa – ef almannatengill þorir ekki að standa við skilaboðin sem hann miðlar er eitthvað óeðlilegt í gangi.

9. Mundu að það er pínu pirrandi að vinna með almannatengslafyrirtæki

Það krefst vinnu að fóðra dýrið. Kosturinn er hinsvegar sá að skalanleikinn gefur frelsi og slagkraft á þeim stundum sem þú veist að þú getur ekki gert allt ein/n. Nútíma almannatengsl grundvallast ekki lengur á brjóstvitinu. Hugvitið, sérfræðin, hefur tekið við og sú tegund af viti er „brutally honest“.

10. Styður yfirstjórn að leita ráðgjafar hjá almannatengslafyrirtæki?

Almannatengsl eru stefnumál í öllum fyrirtækjum á meðan auglýsingar flokkast undir sölu- og markaðsmál. Af þessum sökum verður ávallt að vera vilji hjá yfirstjórn að falast eftir almannatengslaráðgjöf. Annars er ekki hægt að veita nothæfa ráðgjöf.

11. Það er ekki hægt að gera ekkert

Mundu, að heimspekingurinn Paul Watzlawick hafði rétt fyrir sér, maður getur ekki, ekki átt í samskiptum. Meira að segja þögn er samskipti. Móttakandinn túlkar þá bara þögnina sjálfur. Þegar almannatengill segir hyggilegast að gera ekki neitt þá er það yfirleitt vegna þess að hann veit ekki hvað skal gera. Þögn er aðeins hægt að nota taktískt og til að beita henni þannig verður að vera til staðar djúpur skilningur á boðmiðlun og stefnu. Ef sá skilningur er til staðar þá er alltaf hægt að gera margt!