Margir furða sig á skrýtnum orðum tengdum tvöföldu krossmerki (#) á félagsmiðlum og víðar á netinu. Þetta merki kallast á ensku “hashtag” eða #myllutengi á íslensku.
Oft virðist notkun þessa merkis ekki lúta neinum reglum og hreinlega ekki gera annað en að minnka læsileika textans. Notagildið getur hins vegar verið ótvírætt. #flokkun
Lýsigögn félagsmiðla
Twitter er brautryðjandi í notkun myllutengja en útbreiðslan jókst meðal almennings með tilkomu #Instagram. Nú er notkunin virk á öllum helstu félagsmiðlum eins og Facebook og Google+.
Lýsigögn eru gögn sem merkja texta og annað efni á vefnum á sérstakan hátt. T.d á grundvelli vörumerkis, málefnis, atburðar, staðsetningu, boðanda o.fl. Myllutengi gegna slíku hlutverki á félagsmiðlum. #merking
Skólabókardæmi um málefna- og atburðaflokkun er notkun ýmsa uppreisnarmanna í arabíska vorinu. Þeir nýttu oft myllutengi á skilvirkan hátt til að samræma aðgerðir og samkomur. Og það í raun fyrir allra augum. #hvað #hvar #hvenær
Merking háð samhengi
Notkun myllutengja sem lýsigagna virðist rökrétt og reglubundin. En samhengisháð (#contextual) notkun virðist færast í vöxt.
Félagsmiðlar og aðrir vefháðir miðlar eru kaldir. Þeir miðla ekki svipbrigðum og annarri líkamstjáningu. #broskarlar, ýmis tákn og merki ásamt nýjum ritháttarreglum er tilraun fólks til að bregðast við því. Og nú einnig með samhengisháðri notkun myllutengja.
Á þennan hátt geta þau gefið vísbendingu um líðan þess sem skrifar, hvort um grín eða kaldhæðni sé að ræða og margt fleira sem ræðst af samhengi. #ekkalvegafattetta, #íslenskuplís
Stundum er reyndar um algjöran absúrdisma að ræða. Merking getur þá verið dulin eða sett fram hverjum og einum til skilnings á sínum forsendum. #eitthvaðhastaghérna
Einfalt en ekki of #einfalt
Þegar fólk talar saman ræðst merking iðulega af fleiru en orðunum sjálfum. Raddstyrkur, hraði, áherslur, svipbrigði og handahreyfingar boðanda hafa áhrif á skilning móttakanda.
Þarna eru rituðu máli og annarri tæknilegri #miðlun takmörk sett. Samhengisháð notkun myllutengja ásamt broskörlum og merkjum af ýmsu tagi er ætlað að víkka út þessi mörk.
Hér virðast því kristallast tvær klassískar en andstæðar þarfir mannsins. Þ.e. að einfalda heiminn en á sama tíma að flækja hann. Einföldunin felst í flokkun (#kvíun) en óreiðan er aukin með samhengisháðri merkingu.