Frá örófi alda hefur sumt fólk leitað eftir viðurkenningu og samþykki samfélagsins auk þess að vilja vera hluti af einhverju stærra en eigin tilvist, eins og samfélagi.

Fólk vill að rödd sín heyrist og að á skoðanir þess sé hlustað og að rödd þess hafi vægi í samfélagsumræðunni.

Í raun snúast samfélagsmiðlarnir um þetta. Samfélagsmiðlarnir margfalda möguleika fólks til að ná þessum markmiðum.

Með veru sinni á samfélagsmiðlunum vill fólk einnig búa til ákveðna mynd af sjálfu sér í netheimum. Það er gert með stöðuuppfærslum, lækum, athugasemdum við færslur eða tengla annarra og dreifingu ljósmynda og tónlistar. Á samfélagsvefjunum skapar fólk sér ímynd sem endurspeglast í pólitískum skoðunum þess, aðdáun á vörumerkjum, vali á tónlist, hvaða grúppum það tilheyrir og svo framvegis.

Fólk sækir sér líka í auknu mæli upplýsingar sem eru sérstaklega sniðnar að þörfum þess og áhugamálum. Í því ljósi felast mikil tækifæri fyrir fyrirtæki í því að fylgjast með tísku og hugðarefnum þessa hóps. Þannig geti vörumerki tengst virkum notendahópi og komið á samtali við hann vitandi að hópurinn tali áfram um vörumerkin.

Það er því mikilvægt að fyrirtækin láti notendum sínum í té eitthvað sem þeir vilja deila með öðrum og geti þannig deilt ástríðu sinni fyrir vörumerkjum til annarra. Vera fyrirtækja á samfélagsmiðlum þarf því að vera snar þáttur í boðskiptum þeirra.

Þátttaka viðskiptavina veitir aukinn trúverðugleika

Umtal hefur alltaf verið mikilvægt þegar kemur að vali á vöru og þjónustu og eru samfélagsmiðlarnir því í raun stækkuð mynd þess. Með umtalinu geta fyrirtæki séð hvað viðskiptavinirnir segja um vörur þeirra og þjónustu og spurt þá beint og milliliðalaust og þannig fengið markvissari niðurstöður en rýnihópar og fókusgrúppur sem voru ein helstu tól fyrirtækjanna hér áður fyrr.

Umtalið er trúverðugra en hefðbundnar auglýsingar og nota viðskiptavinir umtal til að lýsa yfir velþóknun eða andúð á tilteknum vörum. Auk þess sem afstaða notenda í garð tiltekinnar vöru er veigamikill þáttur í styrkingu persónuleikans þar sem eiginleikar vörunnar tengjast tilteknum gildum tengdum lífstíl eða hugmyndafræði.

Með þessu móti getur markaðsfólk beislað þann trúverðugleika sem fylgir umtali viðskiptavina. Ástæða hans er sú að í umtalinu tala engir hagsmunaaðilar, þar talar ekki starfsfólk eða eigendur fyrir gildum eða gæðum tiltekinnar vöru. Með því móti má notfæra sér umtalið og aðlaga það hagsmunum boðskiptanna um leið og trúverðugleiki þeirra eykst.

Með þessu móti á sér stað færsla frá hefðbundnum eiginleikum boðskipta, með tilheyrandi söluhvötum, yfir í viðeigandi og nýtilegar upplýsingar fyrir notendur samfélagsmiðla. Með umtalinu gera viðskiptavinir þrennt: Þeir koma á framfæri skilaboðum; þeir leggja undir eigið orðspor og trúverðugleika og þeir breyta skilaboðum gegnum tungutak og inntak sem falla að væntingum netsamfélagsins.

 

Deildu:


Viltu meira? Lestu meira

Sendu okkur athugasemd eða fyrirspurn. Ef þú vilt vita meira um efnið eða hefur eitthvað við það að athuga skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur. Fylltu út eyðublaðið og sendu okkur línu núna.
Netfangið þitt:
Efni:
Skilaboð:
Hvað er tveir plús tveir (í tölustöfum)?
Allur réttur áskilinn © Cohn & Wolfe Íslandi 2020 | BCW Burson Cohn & Wolfe | WPP

Heimilt er að deila og dreifa öllu efni á síðunni sé heimildar getið eða tengill vísi á hana.
Allt efni á síðunnu er á ábyrgð Cohn & Wolfe Íslandi | Meðferð persónuupplýsinga (Privacy Policy) | Kökur (Cookies)