Það er ekkert óvenjulegt að deilt sé á fjölmiðla enda kemur það reglulega fyrir að viðmælendur og fréttamaður hafa ólíkan skilning á tilteknu máli. Þetta er ekki undarlegt. Það auðvitað ekki hægt að hella gögnum úr einum kolli yfir í annan. 

Kastljósið hefur fengið ákúrur nýlega, annars vegar eftir viðtal við formann KSÍ og hinsvegar eftir viðtal við forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þó á ólíkum forsendum. Annarsvegar fyrir fullmikla hörku og hinsvegar fyrir efnislega umfjöllun. En megininntakið er samt hið sama: Að ekki sé hægt að tryggja það að móttakandi skilaboða túlki þau eins og sendandi. Hinsvegar er hægt að gera ýmislegt til að vernda skilaboðin og ýta þannig undir betri skilning. Við förum hér að neðan yfir leiðir til að vernda skilaboðin.

Hlutverk fjölmiðlamannsins ætti í flestum tilfellum að vera hið sama: Að fylgjast með þjóðmálaumræðunni í þeim tilgangi að veita aðhald og upplýsa um áhugaverð málefni sem hafa víðtæka þýðingu fyrir samfélagið. Sumir vilja teygja þetta lengra og segja að fjölmiðlar séu fjórða valdið, á eftir löggjafarvaldinu, framkvæmdavaldinu og dómsvaldinu.

Þetta ber að skoða í samhengi við þann raunveruleika sem fjölmiðlafólk starfar í. Umfjöllunarsvið flests fjölmiðlafólks er gríðarlega fjölbreytt, jafnvel þótt það fjalli um afmarkað svið – til dæmis viðskipti. Af þessu leiðir að fjölmiðlar hafa þá tilhneigingu að einfalda um of umfjöllunarefnin, mála þau sem svarthvít eða jafnvel nýta sér erkitýpur til að kasta ljósi á umfjöllunarefnið. 

En hvað þýðir þetta fyrir viðmælendur fjölmiðla? Hvernig ber að bregðast við til að svara með sem skýrustum hætti svo meiningin skili sér sem best til áhorfandans?

Fjölmiðlafólk á að hafa þrjú meginatriði í huga þegar frétt er unnin: Er efnið fréttnæmt? Er hið fréttnæma sanngjarnt og er það nákvæmt? Viðmælandinn ætti hinsvegar einnig að gera sér grein fyrir svörunum við þessum spurningum. Það er auðvitað ekki alltaf svo að fréttamat fjölmiðils sé óskeikult.

Tíu góð ráð til að vernda skilaboðin í samskiptum við fjölmiðla

Það er hægt að beita nokkrum þumalputtareglum til að svara fjölmiðlafólki sem best – vernda skilaboðin.  Auk þess er reyndar einnig æskilegt að benda á það að forvörnin skiptir einnig mjög miklu. Með öðrum orðum þá getur verið mikilvægt að miðla upplýsingum með skipulögðum hætti til að forðast eða draga úr misskilningi. Það eykur líkurnar á því að fjölmiðlar hafi raunverulegt erindi þegar þeir hafa samband auk þess að hvetja til að sendandinn  hafi samband að fyrra bragði búi hann yfir einhverju fréttnæmu.

  1. Fjölmiðlafólk leitar ekki aðeins uppi fréttir. Fréttir koma líka til þess. Ef starfssvið þitt er þess eðlis að það varði samfélagið að einhverju leyti er líklegt að það borgi sig fyrir þig að vera í reglubundnu sambandi við fjölmiðla. Síminn og tölvupósturinn eru gagnvirk. Notaðu þessi tæki.

  2. Fáðu ráðgjöf almannatengils svo þú vitir hvað er mikilvægt og hvað ekki. Hann á að hjálpa þér að vernda skilaboðin. Ef almannatengillinn gerir það ekki, fáðu þér þá annan. Mundu að stjórn fæst aðeins með virkni í skilaboðunum og að þögn er aðeins rétt sem taktísk skilaboð.

  3. Reyndu að svara fyrirspurnum fjölmiðla hratt og vandlega. Ef svarið liggur ekki fyrir er best að segja að málið verði kannað innan ákveðins tímafrest hafa svo samband aftur.

  4. Náðu samkomulagi við fréttamanninn um efni viðtalsins og markmið með því. Ef það er ekki hægt, settu þá reglur af þinni hálfu og hafðu þær skýrar. Auðvitað skal gera ráð fyrir því að allt sem sagt er geti verið haft eftir. Fjölmiðlafólki ber hinsvegar að virða það þegar tala á „off the record“ og því er skynsamlegt að spyrja fréttamanninn fyrirfram hvort hann vilji heyra eitthvað sem ekki má hafa eftir. Sumir kynnu að hafna þessum upplýsingum en oft á tíðum notar fjölmiðlafólk þær til að leita staðfestingar annarsstaðar. Þetta ber að hafa í huga ef uppruni upplýsinganna kynni að vera rekjanlegur.

  5. Þá er einnig hægt að óska þess að fréttamaður noti upplýsingarnar en nafngreini ekki heimildarmanninn. Fréttamaðurinn hefur þá eftir ónafngreindum heimildarmanni að eitthvað hafi verið gert eða sagt. Ósk um þetta þarf að koma fram áður en upplýsingarnar eru gefnar, líkt og með „off the record“. Það er skynsamlegast að ganga út frá því að tilgangur fréttamanns sé málefnalegur, nema annað hafi þegar komið fram.

  6. Ekki móðga eða misskilja fréttamanninn. Fréttamenn geta þurft að spyrja spurninga sem gætu við fyrstu sýn hljómað undarlegar. Þeir eru hinsvegar að reyna að varpa ljósi á efnið og spyrja fyrir hönd þúsunda lesenda og áhorfenda sinna auk þess sem þeir reyna að komast hjá eigin fordómum með því að láta eigin skoðanir ekki hafa um of áhrif á spurningar sínar.

  7. Gættu að einlægni í svörum. Ef fréttamaður spyr spurningar sem þú vilt eða getur ekki svarað bentu þá á annan sem veit svarið og hjálpaðu þannig til. Ef þú getur ekki svarað útskýrðu þá af hverju. Trúverðugleiki skaðast rækilega ef viðmælandi neitar því sem er augljóst.

  8. Gefðu þér tíma. Ekki láta pressa þig í harðsoðin og óskýr svör sem geta valdið misskilningi. Það er miklu erfiðara að leiðrétta misskilning en að koma í veg fyrir hann með vandaðri vinnu. Þetta er auðvitað ein meginástæða þess að stefnumótandi almannatengsl eru nýtt til að spara fjármagn. Ef svörin liggja ekki á lausu, fáðu þá smá tíma til að taka saman svörin og hafðu svo samband aftur á tilteknum tíma.

  9. Ekki biðja um að fá viðtalið sent til yfirlestrar. Það er siðferðislega óeðlileg krafa þar sem fréttamaðurinn má ekki láta undan tilburðum til ritskoðunar auk þess sem það kemur fyrir að fréttir innihalda upplýsingar frá fleiri aðilum sem geta verið viðkvæmar á þessu stigi málsins. Eðlilegast er að vinna sína eigin vinnu vel og leyfa svo blaðamanninum að vinna sína. Ef eigin vinna er góð er einnig auðveldara að eiga við fjölmiðilinn ef farið er rangt með. Það er hinsvegar í lagi að óska eftir því að tilvitnanir séu lesnar yfir í síma. Það er hagur beggja að rétt sé haft eftir.

  10. Fréttamaður vinnur stundum með efnið í víðu samhengi. Það getur því verið erfitt fyrir viðmælanda að vita í hvaða samhengi svör hans verða notuð. Þetta þýðir að samhengi getur haft áhrif á hvernig svör eru túlkuð. Það er skynsamlegra að spyrja áður í hvaða samhengi sé verið að vinna fréttina en að segja eftir á að rangt hafi verið eftir manni haft. Ef ekki er hægt að sýna fram á annað þá þýðir það yfirleitt einfaldlega að viðmælandinn sér eftir því að hafa sagt það sem hann sagði.

Deildu:


Viltu meira? Lestu meira

Sendu okkur athugasemd eða fyrirspurn. Ef þú vilt vita meira um efnið eða hefur eitthvað við það að athuga skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur. Fylltu út eyðublaðið og sendu okkur línu núna.
Netfangið þitt:
Efni:
Skilaboð:
Hvað er tveir plús tveir (í tölustöfum)?
Allur réttur áskilinn © Cohn & Wolfe Íslandi 2020 | BCW Burson Cohn & Wolfe | WPP

Heimilt er að deila og dreifa öllu efni á síðunni sé heimildar getið eða tengill vísi á hana.
Allt efni á síðunnu er á ábyrgð Cohn & Wolfe Íslandi | Meðferð persónuupplýsinga (Privacy Policy) | Kökur (Cookies)