Í hvert sinn sem við förum á netið og vöfrum um veraldarvefinn skiljum við eftir okkur fótspor sem hægt er að rekja. Þessi fótspor eru gögn sem safnað er saman, þau tengd og búnar til úr þeim upplýsingar.

Upplýsingarnar eru síðan nýttar til að birta okkur efni, t.d. auglýsingar, sem þykja við hæfi miðað við aldur, kyn, staðsetningu, menntun og áhugamál svo eitthvað sé nefnt.

Er þetta gagnlegt (fyrir okkur) eða bara krípí? Um það eru skiptar skoðanir en þó eru flestir sammála um að við viljum sjálf stjórna því hvert upplýsingar um okkur fara og hvernig þær eru notaðar.

Hvernig hylur fólk slóð sína og fyrir hverjum?

Pew Research Center framkvæmdi nýlega könnun meðal bandarískra netnotenda og snjallsímaeigenda sem bendir til að stór hluti þeirra reyni á einhvern hátt að dylja auðkenni sín og hylja slóð sína á netinu. Algengasta aðferðin skv. könnuninni var að hreinsa kökur (cookies) og eyða vafrasögu (64%) en fáir kjósa að veita vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um sig á netinu (13%).

Graf sem sýnir hlutfall þeirra aðferða sem fólk notar til að fela auðkenni eða hylja spor sín á netinu

Í könnuninni var líka spurt fyrir hverjum fólk væri að dyljast. Flestir nefndu hakkara og glæpamenn (33%) en fæstir yfirvöld (5%) og lögreglu (4%). Þetta vekur nokkra athygli í ljósi nýlegra frétta um njósnir bandarískra öryggisstofnana gagnvart almennum borgurum.

Graf sem lýsir því fyrir hverju og hverjum fólk vill fela sig á netinu

Hvernig verða gögnin til?

Dæmigerður netnotandi bæði á Íslandi og Bandaríkjunum nýtir sér félagsmiðla af miklum móð og býr þar með til upplýsingar og gögn um sjálfan sig og nærsamfélagið. Dæmigerður netverji notar líka leitarvélar og vafrar um netið og býr þar með til ennþá meiri gögn.

Á síðustu árum hafa svo bæst við öpp fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem mörg hver hafa afar rúmar heimildir í skilmálum til að notfæra sér tengiliðaskrár, staðsetningartæki, myndavélar og annan búnað tækjanna.

Á sama tíma gerast raddir æ háværari um verndun og stjórn persónuupplýsinga á netinu. Þarna opinberast ákveðin mótsögn sem einnig endurspeglast í því fyrir hverjum fólk vill leyna upplýsingum.

Fólk dælir út persónuupplýsingum sem allir geta nálgast með löglegum hætti á meðan það óttast hakkara sem brjóstast inní tölvur og sækja sér gögn ólöglega. Fólk lifir sínu félagslífi í auknum mæli á netinu, í gegnum félagsmiðla og öpp en á sama tíma vill það hylja slóð sína gagnvart ákveðnum vinum, fjölskyldu og gömlum elskhugum svo dæmi séu nefnd.

Og fólk vill auðvelt aðgengi að vörum og þjónustu í gegnum netið en það vill ekki að auglýsendur hagi birtingum sínum með tilliti til áhugamála, aldurs, kyns og staðsetningar. Gríðarleg afkastageta við gagnaöflun og úrvinnslu gerir veröldina okkar svolítið flóknari en þegar allt kemur til alls viljum við flest getað stjórnað því sjálf hverjir nota upplýsingar um okkar og í hvaða tilgangi.

Deildu:


Viltu meira? Lestu meira

Sendu okkur athugasemd eða fyrirspurn. Ef þú vilt vita meira um efnið eða hefur eitthvað við það að athuga skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur. Fylltu út eyðublaðið og sendu okkur línu núna.
Netfangið þitt:
Efni:
Skilaboð:
Hvað er tveir plús tveir (í tölustöfum)?
Allur réttur áskilinn © Cohn & Wolfe Íslandi 2020 | BCW Burson Cohn & Wolfe | WPP

Heimilt er að deila og dreifa öllu efni á síðunni sé heimildar getið eða tengill vísi á hana.
Allt efni á síðunnu er á ábyrgð Cohn & Wolfe Íslandi | Meðferð persónuupplýsinga (Privacy Policy) | Kökur (Cookies)