Mál Birnu Brjánsdóttur, sem fannst látin eftir umfangsmikla rannsókn og leit, hefur tekið mjög á þjóðina alla. Þjóðarhjartað er brotið yfir örlögum Birnu og mikill samhugur ríkir meðal landsmanna, sem hafa beðið fyrir Birnu og aðstandendum hennar allt frá fyrstu dögum rannsóknarinnar á hvarfi hennar. Hátt í þúsund manns hafa tekið beinan þátt í rannsókninni og leitinni og þjóðin öll hefur fylgst vandlega með framgangi mála.

Í þessu dapurlega máli hafa samskipti lögreglunnar við almenning um margt verið óvenjuleg, með yfirlögregluþjóninn Grím Grímsson í fararbroddi. Hann hefur staðið sig afar vel og vegna framgöngu Gríms í fjölmiðlum hefur þjóðin frá upphafi verið sannfærð um að rannsóknin væri í góðum höndum. Að lögreglan væri vel mönnuð og faglega yrði staðið að öllum þáttum rannsóknarinnar. Raunar virðist Grímur Grímsson smellpassa við hugmyndir okkar um hinn fullkomna lögreglumann. Hann er trúverðugur og ábúðarmikill, með sterka rödd en þó ekki of djúpa. Hann talar skýrt og velur orð sín af kostgæfni, svo orðfærið verður hlutlaust en ekki gildishlaðið. Hann er með einbeitt augnaráð en þó svipbrigðalítill og engin spurning hefur komið honum úr jafnvægi. Hann stendur eða situr kyrr í viðtölum og á blaðamannafundum, talar um staðreyndir en ekki getgátur og útilokar enga möguleika fyrirfram. Samhliða hefur framgangur rannsóknarinnar verið markviss, sem gefur til kynna að henni sé vel stýrt og rannsóknarteymið sé vel skipað. Þá hefur óvenju gott aðgengi fjölmiðla að Grími og há tíðni viðtala sannarlega stuðlað að auknum trúverðugleika.

Ekkert eitt skýrir trúverðugleika einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja heldur margir samverkandi þættir. Aðstæður, málavextir og væntingar eru meðal þessara þátta. Það kann að vera, að ítrekaðar fréttir af erfiðum innri málum lögreglunnar, fjársvelti og fækkun lögreglumanna hafi dregið úr væntingum okkar til lögreglunnar sem hefur nú sýnt fram á mikla hæfni til að fást við erfið mál. Fyrir vikið kunna viðbrögð okkar við góðri frammistöðu að vera sterkari en ella. Hvað sem því líður virðist lögreglan hafa áunnið sér mikið traust almennings með skipulagðri miðlun upplýsinga, sem hlýtur að byggja á ákvörðun lögreglustjórans Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttir sem gefur tóninn í málum af þessu tagi. Fjölmiðlaframkoma annarra lögreglumanna í þessu erfiða máli, t.d. Einars Guðbergs Jónssonar lögreglufulltrúa og Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns, gefur a.m.k. tilefni til að ætla að unnið sé eftir skýrri stefnu og hlutaðeigandi aðilar hafi fengið þjálfun. Það er vel, enda hefur það sýnt sig að samstarf lögreglu og almennings getur skilað miklum árangri.

 

Deildu:


Viltu meira? Lestu meira

Sendu okkur athugasemd eða fyrirspurn. Ef þú vilt vita meira um efnið eða hefur eitthvað við það að athuga skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur. Fylltu út eyðublaðið og sendu okkur línu núna.
Netfangið þitt:
Efni:
Skilaboð:
Hvað er tveir plús tveir (í tölustöfum)?
Allur réttur áskilinn © Cohn & Wolfe Íslandi 2020 | BCW Burson Cohn & Wolfe | WPP

Heimilt er að deila og dreifa öllu efni á síðunni sé heimildar getið eða tengill vísi á hana.
Allt efni á síðunnu er á ábyrgð Cohn & Wolfe Íslandi | Meðferð persónuupplýsinga (Privacy Policy) | Kökur (Cookies)