Viðbrögð almennings við því að ákveðið var að hætta að senda út útvarpsstöðina BBC World Service á Íslandi urðu til þess að stöðin er komin í loftið á ný. Þar með er einni röddu meira í flórunni og ein leið til viðbótar við að halda sér upplýstum um heimsfréttirnar.

Viðbrögð almennings við þeirri ákvörðun 365 miðla að hætta að senda út útvarpsstöðina BBC World Service voru trúlega meiri en við var búist. Þó fjöldinn sem skrifaði undir rafrænan undirskriftalista hafi ekki verið svo ýkja mikill, náði ekki 1.000 nöfnum, og bloggheimar, Facebook og Twitter hafi sannarlega ekki logað, hafði umtalið að því er virðist einhver áhrif.

Tilkynnt var um það nýverið að Vodafone hafi náð samningum við BBC um að senda út stöðina, sem flytur heiminum fjölbreyttar fréttir og fréttaskýringar. Stöðin er því komin aftur í loftið. Það er rétt sem haft er eftir forstjóra Vodafone í tilkynningu, stöðin eykur svo sannarlega fjölbreytni í fjölmiðlaflórunni. Það eykur víðsýni að hlusta á viðtal við fólk úr öðrum menningarsamfélögum og fá að fylgjast með því sem gerist sem ekki ratar endilega í íslenskar fréttir.

Það er löngu liðin tíð að neytendur fjölmiðla þurfi að bíða eftir því að íslenskum fjölmiðlum berist fréttaskeyti utan úr heimi. Margir kjósa að sækja sér heimsfréttirnar á erlenda miðla, til dæmis með því að hlusta á BBC World Service, eða með því að skoða fréttasíður sem henta þeirra áhuga.

Þetta tengist því sem hefur verið fjallað um áður á þessum vettvangi, því hvernig fréttahringurinn er að styttast. Fólk væntir þess nú að fá fréttir um leið og eitthvað gerist. Þá er fjölbreytnin af hinu góða, þegar einn fjölmiðill sefur á verðinum má finna einhvern annan til að svala forvitninni.

Deildu:


Viltu meira? Lestu meira

Sendu okkur athugasemd eða fyrirspurn. Ef þú vilt vita meira um efnið eða hefur eitthvað við það að athuga skaltu ekki hika við að hafa samband við okkur. Fylltu út eyðublaðið og sendu okkur línu núna.
Netfangið þitt:
Efni:
Skilaboð:
Hvað er tveir plús tveir (í tölustöfum)?
Allur réttur áskilinn © Cohn & Wolfe Íslandi 2020 | BCW Burson Cohn & Wolfe | WPP

Heimilt er að deila og dreifa öllu efni á síðunni sé heimildar getið eða tengill vísi á hana.
Allt efni á síðunnu er á ábyrgð Cohn & Wolfe Íslandi | Meðferð persónuupplýsinga (Privacy Policy) | Kökur (Cookies)