Apple trónir á toppinum sem verðmætasta vörumerki í heimi, samkvæmt nýjasta BrandZ-listanum yfir 100 verðmætustu vörumerki í heimi. Google vermdi toppsætið í fyrra og var Apple þá í öðru sæti.

Apple hefur áður vermt toppsætið. Verðmæti vörumerkisins nemur 247 milljörðum dala, jafnvirði 33.000 milljarða íslenskra króna. Verðmætið hefur aukist um 67% frá því í fyrra. Helsta ástæðan fyrir því að Apple keyrir fram úr Google er góð sala á nýjasta snjallsímanum, iPhone 6 og mikil nýsköpun innan veggja Apple.

Kínverskum fyrirtækjum fjölgar

Listinn yfir verðmætustu vörumerki heims er birtur einu sinni ári og er þetta tíunda árið sem það er gert. Helstu ályktanirnar sem draga má af stöðu vörumerkja á listanum í ár er að verðmæti bandarískra og kínverskra vörumerkja er að aukast á meðan þau evrópsku standa í stað. Á listanum yfir 100 verðmætustu vörumerki heims eru 14 kínversk fyrirtæki. Þegar BrandZ-listinn var fyrst birtur árið 2006 var eitt fyrirtæki skráð í Kína á listanum yfir þau 100 verðmætustu. 

Evrópsk fyrirtæki í vanda

Á þessum tíu árum sem liðin eru síðan BrandZ-listinn var birtur í fyrsta sinn hefur verðmæti fyrirtækja sem eru á listanum aukist um 126%. Verðmæti fyrirtækja frá Kína hefur aukist langmest á þessu tímabili, og hefur verðmætið rúmlega tífaldast. Verðmæti fyrirtækja í Bandaríkjunum er 137% hærra nú en fyrir tíu árum. Verðmæti fyrirtækja sem skráð eru í Evrópu hefur aðeins aukist um 31% á þessum tíu árum. Það þykir endurspegla þáerfiðleika sem fyrirtæki í álfunni glíma við. Síðasta ár endurspeglar það en þá dróst markaðsverðmæti fyrirtækja í Evrópu saman um 9,3% á milli ára. Á sama tíma jókst verðmæti bandarískra fyrirtækja um 15%. 

Á listanum yfir 100 verðmætustu fyrirtæki heims eru aðeins 24 evrópsk sem er 11 fyrirtækjum færra en fyrir áratug. Kínversk fyrirtæki hafa tekið sæti þeirra evrópska sem hafa horfið af listanum. 

Styrktu vörumerkið

BrandZ-listinn sýnir að fjárfesting í vörumerki fyrirtækja  skilar sér í sterkara og verðmætara fyrirtæki.

Það er markaðsrannsóknarfyrirtækið Millward Brown  sem tekur BrandZ-listann saman á hverju ári. Millward Brown er hluti af fyrirtækjasamsteypunni WPP. Fyrirtæki innan WPP vinna náið saman. Innan samsteypunnar er almannatengslafyrirtækið Cohn & Wolfe.

Allur réttur áskilinn © Cohn & Wolfe Íslandi 2020 | BCW Burson Cohn & Wolfe | WPP

Heimilt er að deila og dreifa öllu efni á síðunni sé heimildar getið eða tengill vísi á hana.
Allt efni á síðunnu er á ábyrgð Cohn Wolfe Íslandi | Meðferð persónuupplýsinga (Privacy Policy) | Kökur (Cookies)